Ég hef lengi verið að pæla í alls kyns kerfum, strúktúrum og mörkum óreiðu og reglu,“ segir Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir myndlistarkona um sýningu sína, Óreiðukenninguna. „Þetta bil milli reiðu og óreiðu hefur verið þema sem ég hef velt fyrir mér í þó nokkurn tíma.“ Helstu þemu sýningarinnar eru reglur, frávik, stöðugleiki og óreiða sem Ingunn segir að megi finna í öllum verkunum. „Ég hef verið að pæla hvort heimurinn sé í eðli sínu kaótískur eða hvort hann stýrist af reglum og lögmálum. Hvort það séu tilviljanir í lífinu eða ekki,“ segir hún. „Sumt sem við upplifum sem óreiðukennt er hluti af heildarmynd sem er kannski svo stór að við komum ekki auga á hvað sé orsök og hvað sé afleiðing. Ég fór aðeins að kanna þetta og kynntist þannig óreiðukenningunni.“

Algóriþmar og fiðrildi

Í grunninn byggir óreiðukenningin á að ýmis kerfi heimsins sem virðast hegða sér tilviljanakennt stjórnast í raun af undirliggjandi mynstrum og ákveðnum lögmálum. Þessi kerfi geta verið viðkvæm fyrir breytingum á upphafsskilyrðum, þar sem litlar breytingar geta haft stórar afleiðingar, samanber hina svokölluðu fiðrildakenningu.

„Ég er ekki stærðfræðingur og nálgast efnið sem myndlistarmaður,“ segir Ingunn. „Ég er ekki að reyna að útskýra þetta á vísindalegan hátt heldur frekar að nálgast þetta út frá því hvernig ég skynja það. Sem dæmi áttum við okkur heldur ekki alltaf á þeim undirliggjandi kóðum og algóriþmum sem stýra svo mörgu í okkar daglega lífi heldur sjáum við aðeins birtingarmyndina sem kann að virðast tilviljanakennd.“

Ofna málverkið Stöðugleiki.

Lifandi vettvangur

Það getur reynst listamönnum þrautin þyngri að túlka sanna óreiðu en Ingunn segist hafa beitt nokkrum aðferðum til þess. „Ég bjó til ákveðnar reglur sem ég ýmist fylgdi eða braut. Þetta á sérstaklega við í pappírsverkunum þar sem ég byrjaði með ákveðna reglu og lagði svo aðra reglu ofan á,“ segir hún. „Í ferlinu urðu stundum mistök. Þau gátu verið óvart en stundum gerði ég þau viljandi og ég lék mér aðeins að þessum mörkum.“

Verk Ingunnar eru fjölbreytt, hún vinnur meðal annars með ofin verk, teikningar og vatnsliti. „Í fyrsta skipti í langan tíma er ég að vinna verk á pappír,“ segir hún. „Ég hef aðallega verið að vinna málverk og innsetningar og hef sérstaklega verið að þreifa mig áfram með tenginguna á milli málverks og textíls.“

Sýningin er í verslun Norr11 við Hverfisgötu sem er öðruvísi vettvangur en Ingunn hefur áður vanist. Ég hef aðallega verið að sýna í galleríum og á listasöfnum en hef aldrei prófað að sýna áður í húsgagnavöruverslun,“ segir hún. „Mér fannst spennandi að taka þátt í þessari sýningaröð sem Elísabet Alma hjá Listval sýningarstýrir. Verslunin er ekki stór, en rýmið er fallegt og þar eru vandaðar vörur og góð hönnun. Hún er óhefðbundin að því leyti að þar eru frekar fáir hlutir til sýnis hverju sinni, en þau eru dugleg að breyta til og skipta út svo það myndast lifandi og skemmtileg stemning. Svo er þetta tækifæri fyrir mig til að kynna verkin mín fyrir öðrum hóp en kemur venjulega á sýningarnar mínar.“