Það var verið að taka upp einn þátt af fjórum sem fjalla um kvenkynsleiðtoga í náttúruvísindum hjá National Geographic og þann eina sem tekinn verður hér á landi. Þeir munu allir fjalla um vatn í einhverju formi,“ segir Sólveig Sveinbjörnsdóttir sem í liðinni viku þræddi ýmsa skriðjökla Austur-Skaftafellssýslu með kvikmyndaliði og vísindafólki. Hún og maður hennar, hinn franski Guillaume, hafa nýlega stofnað fyrirtækið Localicelander sem sérhæfir sig í jöklaferðum.

Kvenkynsleiðtoginn sem þátturinn fjallar um er dr. M. Jackson, land- og jöklafræðingur, sem að sögn Sólveigar hefur verið mikið á Suðausturlandi við rannsóknir og meðal annars skoðað samband fólks og jökla. Hún gaf út bók á þessu ári sem nefnist The Secret Lives of glaciers, og er komin í íslenskar bókabúðir. „Við Guillaume vorum ekki bara leiðsögumenn heldur líka hluti af þættinum, því dr. M. hefur fylgst með okkur. En það er mikið að gerast í kringum okkur og breytingarnar eru örar. Dæmi um það eru við Svínafellsjökul sem nú er bannað að ferðast um vegna hættu á berghlaupi, því jökullinn veitir ekki sama stuðning við fjallið og áður,“ segir Sólveig.

Hér er komin upp á krosssprunginn Breiðamerkurjökul

Þættirnir eru framleiddir af kanadíska fyrirtækinu Sherpas Cinema. Það vinnur þá í samstarfi við National Geographic og Google. Sólveig segir nýja sýndarveruleikatækni hafa verið notaða við tökurnar. „Það var allt tekið upp í 360 gráðum, þannig að áhorfandinn fer í ferðalag um sjóndeildarhringinn með því að setja á sig sérstök gleraugu. Myndavélarnar eru viðkvæmari en gengur og gerist og þola ekki rigningu en við vorum ótrúlega heppin með veður. Við fórum víða um jöklana og sigldum um Fjallsárlón, vinnudagarnir voru langir, tólf til fimmtán tímar á sólarhring. Við vorum alltaf að segja tökumönnunum að það væri nóg eftir af deginum þegar þeir voru að líta á klukkuna!“

Myndatökulið að störfum á Skálafellsjökli.

Ekki kveðst Sólveig vita hvenær þátturinn verði á dagskrá. „Ég hef ekki fengið nákvæma tímasetningu en held að það verði einhvern tíma í haust. Hinir þrír verða teknir upp annars staðar í heiminum. Þar eru ýmis umfjöllunarefni. Ég held að ein vísindakonan sérhæfi sig í kóralrifum.“

Sólveig og Guillaume hafa verið saman í á fimmta ár. „Við byrjuðum með að verja vetrunum úti og skíða og ferðast um, bjuggum í húsbíl einn vetur, svo komum við heim á sumrin og unnum við leiðsögn. Nú höfum við okkar helstu atvinnu yfir vetrartímann hér. Við höfum aðallega sérhæft okkur í íshellaferðum fyrir ljósmyndara. Einnig getur fólk keypt kort á heimasíðunni localicelander.is með upplýsingum og hollráðum fyrir ferðamenn. Við erum að reyna að gera ferðir um Ísland öruggari fyrir fólk sem ferðast á eigin vegum. Það getur líka haft samband við okkur meðan á ferðalaginu stendur. Við erum mjög virk á Instagram undir merkinu localicelander.