Þessi hátíð hefur verið haldin árlega um sólstöður frá 1964 og þetta er í fyrsta skipti sem henni er aflýst. Það er sannarlega mjög leiðinlegt,“ segir Ragnheiður Skúladóttir, stjórnandi listahátíðarinnar Festspillene i Nord-Norge, í Harstad. „Auðvitað var heilmikill undirbúningur, enda risastór, átta daga hátíð með öllum listgreinum. Innan hennar er önnur vikulöng hátíð sem heitir Nuk ny ung kunst, stofnuð 1992, þar sem fatlaðir og ófatlaðir unglingar eru með vinnustofur saman og sýna afraksturinn í lokin. Þar er líka lögð áhersla á allar listgreinar. Nú er allt slegið út af borðinu þetta árið, en öll heimsbyggðin er á sama báti og hefur aldrei farið gegnum svona tíma. Í byrjun mars fannst okkur óraunverulegt að aflýsa hátíð sem við ætluðum að halda í lok júní, héldum að þetta yrði bara flensa sem yrði gengin yfir. En í dymbilvikunni var sú ákvörðun tekin að hætta við.“

Ragnheiður segir vinnu líka í að aflýsa hátíð. „Við gátum ekki bara frestað henni fram á haustið, vitum ekkert hvernig það lítur út varðandi ferðalög. Um helmingur þátttakenda kemur langt að og hinn er héðan frá Norður-Noregi. Sumum viðburðum var algerlega aflýst en aðrir færast yfir á hátíðina 2021.

Við erum átta manna teymi sem vinnum allt árið við undirbúninginn og í aðdragandanum koma inn aðrir 10-20 vinnukraftar og 120 sjálfboðaliðar. Hátíðin er hér í 25.000 manna bæjarfélagi og er einn af burðarstólpunum í norður-norsku menningarlífi, þýðingarmikill samkomustaður og fólk kemur hvaðanæva. Þetta er því mikill skellur. En við höfum notað tímann til að móta nýja stefnu fyrir næstu fjögur árin svo við þurfum aldrei að aflýsa aftur. Það hefur verið frjó og þörf vinna.“

Þrír viðburðir verða samt á dagskrá í fyrirhugaðri hátíðaviku sem hefst 20. júní. Þetta verða allt þátttökuviðburðir, að sögn Ragnheiðar. „Til dæmis verður vinnustofa í graffíti fyrir unglinga í Norður-Noregi, nýtt prógramm fyrir unga áhorfendur og tilraunaverkefni með þeim gegnum farsíma.“

Ragnheiður hefur búið í Harstad síðan í byrjun árs 2019 en líka verið með annan fótinn í Reykjavík og ferðast um heiminn í tengslum við hátíðarundirbúninginn. „Mér finnst nauðsynlegt að búa þar sem aðalvinnan mín er, en þurfti að fara þrisvar í hálfsmánaðar sóttkví út af flakkinu á mér. Hér hafa allir verið á heimaskrifstofum. Það hafa greinst mjög fá tilfelli í Harstad, aðeins fleiri í Tromsö, en fólk hefur verið samviskusamt að halda tveggja metra reglunni og hér var gripið til svipaðra ráðstafana og heima. Það hefur gengið vel. Á tímabili þurfti fólk að fara í sóttkví ef það hafði farið suður fyrir fylkislínuna,“ segir hún.

Harstad er hafnarbær á 68,5 breiddargráðu og Ragnheiður segir veðráttuna svipaða og á Akureyri. „Það getur snjóað mikið en þessi vetur var enginn fimbulvetur. Enn er samt snjór á jörðu í byggð en hann er á undanhaldi. Sumurin eru stutt en góð. Það er gaman að vera hér og mér finnst Norðmenn opnir og skemmtilegir, það er töggur í fólki, líkt og heima, það gefst ekki upp og hlutir eru ekkert sjálfsagðir því fólk man eftir að hafa þurft að berjast fyrir þeim. Hér er fjölbreytt samfélag, fólk er áhugasamt um menningu og það er vel stutt við hana.“