Mér finnst áskorun að finna skemmtilegar leiðir til að kenna börnum litháísku og líka að sjá börn þróast í sköpun og listum,“ segir Jurgita Motiejunaite, innanhúss- og húsgagnahönnuður. Hún kennir fjögurra ára börnum litháísku í Litháíska móðurmálsskólanum og er þar einnig með listakennslu fyrir eldri börn. Hún segir kennsluna vera mest í sjálfboðavinnu.

Jurgita hefur einnig verið með sögustundir á Borgarbókasafninu og skreytt þær með brúðuleikhússatriðum. Hún hefur miklu að miðla enda heldur hún sjálf áfram að auka þekkingu sína. Nú vinnur hún að meistaraverkefni í alþjóðlegri menntunarfræði, það snýst um fagmennsku móðurmálskennara. Einnig er hún að undirbúa einkasýningu í Gerðubergi á vordögum og útbúa verkefni fyrir barnamenningarhátíð Norræna hússins í apríl. „Þar verður áhersla á menningu Eystrasaltsríkjanna,“ segir hún stolt.

Ástin kviknaði úti í Vilníus

Jurgita útskrifaðist frá listaháskólanum í Vilnius árið 1999 og tók þátt í nokkrum sýningum, auk þess að kenna börnum í myndlistarskólanum þar um skeið. En hvenær flutti hún til Íslands og hvað kom til? „Ég flutti hingað 2008. En áður hafði ég komið hingað í vinnuferð um vor- eða sumartíma vegna viðskipta við íslensk fyrirtæki. Ég var að vinna hjá fyrirtæki í Vilníus og hitti þar íslenskan mann sem var að kaupa húsgögn. Þannig kynntist ég núverandi eiginmanni mínum. Ég flutti sem sagt til landsins rétt fyrir hrun en þá breyttist margt, bæði í Litháen og á Íslandi. Dóttir mín fæddist líka rétt eftir að ég kom hingað svo það varð mikil breyting á lífinu hjá mér og auðvitað líka í samfélaginu.“

Heilt yfir segir Jurgita sér þó hafa liðið vel á Íslandi. Henni finnst íslenski maturinn góður ef undan er skilinn þorramatur og skata! „Íslenskur matur minnir mig á litháískan mat, nema hvað Litháar borða svínakjöt í stað lambakjöts.“

Sextíu börn að læra litháísku

Í Litháíska móðurmálsskólanum hefur Jurgita kennt frá árinu 2011, en segir skólann hafa verið stofnaðan árið 2004 af konu sem heiti Jurgita Milleriene. „Við erum tólf sem kennum þar nú og nemendurnir eru um 60. Kennslan fer fram í Fellaskóla nokkra tíma á laugardögum frá september fram í maí. Námsgreinarnar eru sumar óhefðbundnar, skátastarf, leiklist og alls konar. Það á að vera skemmtilegt að vakna á laugardögum og fara í skólann.“ Þó viðurkennir hún að erfiðara sé að gera unglingum til hæfis en þeim yngri og það fækki í árgöngunum eftir því sem þeir eldast. COVID hafði að sjálfsögðu sín áhrif í litháíska skólanum eins og öðrum. „Við vorum með fjarkennslu bæði í vor og aftur í haust,“ lýsir Jurgita. „En núna eru nemendur komnir aftur í skólann og það var gaman að hittast.“