Sunnudagur 4. september

Sunnudagur-4-9-22.png

Víðast hæg breytilega átt. Léttskýjað norðan heiða en yfirleitt fremur skýjað syðra og sums staðar þokubakkar við sjóinn norðan og austan til. Hiti 10-18 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Veðrabreytingar á Höfuðdag - 29. ágúst

29. ágúst gekk yfir landið mun hlýrra loft en við höfum í raun séð í sumar. En það er svolítið gaman að það skuli gerast 29. ágúst, því þá er svokallaður Höfuðdagur og veðurhjátrúin segir að á Höfuðdegi verði breytingar á veðri frá því sem verið hefur og sem standa munu í 20 daga. Ekki virðist það nú standast skoðun. En eindregin og góð hlýindi koma með þessum loftmassa um allt land þó við séum að dansa yfir 20°C línunni á Norðausturlandi á mánudag 29. og þriðjudag 30. ágúst hið minnsta auk þess sem þar verður opinn himinn. [Hiti fór í 25 stig þann 30. ágúst á Mánárbakka á Tjörnesi.

Sagan að baki Höfuðdegi er samt ekki falleg, en þann dag árið 31 e.kr. var Jóhannes skírari afhöfðaður að skipan Heródesar konungs í Júdeu að beiðni fósturdóttur sinnar, Salóme. Heródes var tæplega fertugur þegar hann varð konungur í Júdeu og þótti heldur illskeyttur á sinni tíð að því er heimildir herma.

Næturfrostin minna á sig

Aðfararnótt þriðjudagsins 16/8, frysti á allmörgum veðurathugunarstöðvum á láglendi. Kaldast varð á Þingvöllum -4,3°C og næst kaldast varð á Torfum í Eyjafirði -3,0°C.

Þar á undan aðfararnótt mánudagsins frysti á þremur veðurathugunarstöðvum. Kaldast varð á Hólum í Dýrafirði þar sem hitastgið fór lægst í -1,6°C. Einnig frysti á Hjarðarlandi í Biskupstungum, -0,4°C og Básar í Þórsmörk -0,3.

Tekið skal fram að þetta eru hitatölur í 2ja metra hæð, en það er sú hæð sem opinber hiti er venjulega gefinn upp en einnig er mældur hiti niður við jörð.

Stundum gerist það að það frysti í neðstu loftlögum, þ.e. í minna en 2ja metra hæð og það finna menn kannski best þegar döggin á bílrúðunum frýs þó hitamælirinn frá Veðurstofu sýni frostleysu. En það er þessi hæðarmunur sem skiptir höfuð máli sér í lagi í hægviðri og bjartviðri. Þetta segir okkur einnig að það geti orðið launhált að næturlagi á vegum þó hitamælirinn í bílnum sýni plús hitastig.
Það er ekkert óeðlilegt við þetta núna enda himinn bjartur og nóttin farin að lengjast og vindur afskaplega hægur. Þetta eru kjöraðstæður fyrir frosti að næturlagi.

Framundan eru engin skýr merki um næsturfrost á láglendi næsta sólarhringinn, því loftið yfir landinu verður lítið eitt hlýrra en síðustu nótt.