Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic hefur greinst með COVID-19. Forsvarsfólk fótboltaliðsins AC Milan greinir frá þessu í tilkynningu á vefsíðu sinni.

Framherjinn mun þar af leiðandi ekki spila með AC Milan í leik liðsins á móti Alfons Sampsted og félögum hans hjá Bodø/Glimt í forkeppni Evrópudeildarinnar annað kvöld, fimmtudaginn 25. september.

Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig þessi litríki karakter muni haga baráttunni við COVID-19 en hann er þekktur fyrir að gefa hvergi eftir í keppni við andstæðinga og beitir jafnvel fantabrögðum ef hann telur brýna þörf á.

Þessi tilkynning kemur nokkrum dögum eftir að Zlatan mætti Andra Fannari Baldurssyni og félögum hans hjá Bologna. Zlatan skoraði tvívegis í fyrsta leik tímabilsins þegar AC Milan vann 2-0 sigur á Bologna.

Andri Fannar kom inn af bekknum hjá Bologna og lék stærstan hluta seinni hálfleiks en í ljós kemur á næstu dögum hvort að aðrir leikmenn innan vallarins hafi smitast.

Ef Andri er smitaður er hann í hættu á að missa af leik Íslands og Rúmeníu sem er eftir tvær vikur.