Það er hálfgerð synd að þegar Zion Williamson var loksins kominn inn á völlinn og að leiða lið New Orleans Pelicans í þá átt sem ætlast var til þegar félagið valdi hann í nýliðavali síðasta árs, skuli deildin fara í hlé vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Eftirvæntingin eftir að sjá hvernig hann myndi takast á við NBA-deildina og trukkana sem biðu þar, eftir að hafa verið eins og fullorðinn karlmaður meðal barna í háskólaboltanum, var gífurleg og stóð Zion undir væntingunum fyrstu vikurnar. Önnur eins fjölmiðlaumfjöllun hefur ekki fylgt dreng á þessum aldri síðan LeBron James kom inn í deildina en það hefur ekki komið niður á Zion sem er afar jarðbundinn. Hann er duglegur að taka þátt í góðgerðarverkefnum og aðstoðaði meðal annars Barack Obama við að úthluta ritföngum og mat til krakka sem þurftu á því að halda í Chicago-borg í síðasta mánuði.

Brosmildur eftir að hafa verið kosinn besti leikmaður háskólaboltans.

Það er lítið öryggi hjá leikmönnum í NBA-deildinni og geta meiðsli bundið enda á ferilinn skyndilega. Í tilfelli Zion fékk hann að kynnast því að bíða á hliðarlínunni fyrstu mánuði tímabilsins vegna hnémeiðsla og eru sérfræðingar ekki vissir hversu langur ferillinn verði með þennan ógurlega skrokk. Það kom ekki í veg fyrir að Zion fetaði í fótspor annarra leikmanna NBA-deildarinnar og bauðst til að greiða laun starfsfólksins í höllinni sem New Orleans Pelicans leikur í á meðan hléið stendur yfir. Þetta framlag ætti ekki að trufla ungstirnið sem fær tæplega tíu milljónir dollara fyrsta ár sitt í deildinni ásamt því að vera búinn að gera styrktarsamninga við Jordan-línu Nike, Gatorade, Panini America, Mercedes-Benz, Fanatics, Beats, Mountain Dew og 2K Sports.

Í stærsta leik Duke í fyrra rifnuðu skór Zion og verðbréfin í Nike hrundu.

Væntingarnar upp úr öllu valdi.

Zion kemur úr mikilli íþróttafjölskyldu, faðir hans þótti efnilegur í ruðningi og móðir hans var efnileg í spretthlaupum. Stjúpfaðir hans var leikstjórnandi í háskólakörfuboltanum og átti eftir að hafa mikil áhrif á feril hans. Á yngri árum var Zion lágvaxinn og var því leikstjórnandi fyrstu ár körfuboltaferilsins ásamt því að æfa bæði knattspyrnu og ruðning. Zion lét það ekki stöðva sig og byrjaði að æfa klukkan fimm að morgni aðeins níu ára gamall. Þegar hann var þrettán ára stækkaði hann um sextán sentimetra, byggði upp vöðva og varð skyndilega óstöðvandi. Á sama tíma fóru myndbönd af Zion að troða að slá í gegn á Youtube og var hann kominn á forsíðu Slam Magazine sautján ára gamall. Fyrir vikið hrönnuðust inn tilboð frá bestu háskólum Bandaríkjanna og valdi Zion að leika fyrir Duke.

Zion var ekki lengi að henda í fyrsta veggspjald ferilsins gegn Hawks.

Hjá Duke myndaði Zion ógnarsterkt þríeyki með Cam Reddish og RJ Barrett. Liðið vann 32 leiki en féll út í átta liða úrslitum marsfársins (e. March madness). Tveimur vikum seinna tilkynnti Zion að hann myndi skrá sig í nýliðaval NBA-deildarinnar en áhrif hans á bandaríska háskólakörfuboltann voru auðsjáanleg. Miðaverð á leiki þegar Duke kom í heimsókn rauk upp og var Zion valinn besti leikmaður tímabilsins.

New Orleans Pelicans þurfti á nýrri stórstjörnu að halda í sumar eftir að hafa skipt Anthony Davis til Los Angeles Lakers og virðist val félagsins á ungstirninu ætla að skila því góðu. Stuðningsmenn liðsins þurftu að vera þolinmóðir á meðan Zion, sem verður tvítugur í sumar, náði sér af meiðslum en gengi liðsins var slakt. Í byrjun febrúar var loksins komið að eldskírninni og bauð Zion upp á sautján stig í röð í fjórða leikhluta í naumu tapi gegn San Antonio Spurs. Tapið sveið eflaust að einhverju leyti en ljóst var að hér var komin stórstjarna.

Í næstu tuttugu leikjum vann Pelicans þrettán sinnum eftir að hafa unnið sautján af fyrstu 44 leikjum sínum þar áður. Um leið varð Zion fyrsti leikmaðurinn undir tvítugu sem skorar tuttugu stig eða meira í tíu leikjum í röð.

Ef NBA-deildin hefst á ný eftir þetta hlé er ljóst að það verður erfitt fyrir Pelicans að laumast inn í úrslitakeppnina úr þessu. Möguleikinn er til staðar en frestunin er ekki hliðholl Pelicans. Félagið gæti því þurft að bíða í eitt ár eftir tækifærinu á að gera sig gildandi í úrslitakeppninni en ljóst er að með Zion, Brandon Ingram og Lonzo Ball sem ungan kjarna er jafnvel hægt að kokka saman meistaraefni.