Real Madrid staðfesti í dag að knattspyrnustjórinn Zinedine Zidane hefði greinst með kórónaveiruna og er Frakkinn goðsagnarkenndi því kominn í einangrun.

Zidane er af mörgum talinn einn af bestu sóknartengiliðum allra tíma en hann fór fyrir franska landsliðinu þegar Frakkland vann HM og EM árið 1998 og 2000. Þá lék hann lykilhlutverk í liðum Juventus og Real Madrid á farsælum ferli.

Síðan hann tók upp þjálfun hefur hann náð mögnuðum árangri með Real Madrid þegar Madrídingar urðu fyrsta liðið til að vinna Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð.

Undir stjórn Zidane vann Real Madrid spænsku deildina í fyrra og spænska Ofurbikarinn.

Madrídingar hafa átt erfitt uppdráttar upp á síðkastið og datt Real úr leik í spænska bikarnum í vikunni gegn liði úr 3. deildinni.