Spænskir fjölmiðlar fullyrða í dag að Florentino Perez, forseti Real Madrid, hafi komist að samkomulagi við Zinedine Zidane um að taka við liðinu á ný og að Santiago Solari verði rekinn síðar í dag.

Sá franski hætti störfum hjá Real Madrid síðasta vor eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs í Meistaradeild Evrópu þriðja árið í röð.

Julien Lopetegui sem tók við af Zidane var rekinn í haust og tók Argentínumaðurinn Santiago Solari við keflinu en honum hefur ekki tekist að ná þeim árangri sem krafist er í Madrídarborg.

Real datt óvænt úr leik í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku ásamt því að falla úr leik í spænska bikarnum. Þá er Real tólf stigum á eftir Barcelona í deildinni.