Fótbolti

„Þyrstir að hefna fyrir skellinn sem við fengum í Sviss“

Rúrik Gíslasyni finnst umræðan um að gullaldartími landsliðsins sé búinn vera ósanngjörn og finnur fyrir miklum stíganda á æfingum liðsins í aðdraganda leiksins gegn Sviss á mánudaginn. Hann er klár í slaginn ef kallið kemur eftir að hafa hvílt gegn Frakklandi vegna smávægilegra meiðsla.

Rúrik vonsvikinn á svip í leik Sviss og Íslands á Kypunpark fyrir rétt rúmum mánuði þegar Ísland var niðurlægt í 0-6 tapi. Fréttablaðið/Getty

Rúrik Gíslason segir að leikmenn landsliðsins séu ákveðnir í að hefna fyrir niðurlæginguna sem íslenska landsliðið þurfti að upplifa í 0-6 tapi gegn Sviss ytra á dögunum þegar liðin mætast á ný á mánudaginn.

Íslenska landsliðið mætir því svissneska í seinni heimaleik Íslands í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvelli.

„Það er alveg hægt að segja að við séum ákveðnir í að svara fyrir leikinn í Sviss og að okkur þyrstir í að hefna fyrir þennan skell. Við vorum teknir í bakaríið í Sviss,“ sagði Rúrik og hélt áfram:

„Þá byrjar umræða hvort að landsliðið sé búið að vera og hvort að menn séu saddir en þessi umræða finnst mér algjört bull. Maður verður aldrei saddur þegar verið er að spila fyrir landsliðið. Við höfum fundið fyrir þessari umræðu og hún endurspeglast í miðasölunni, ég skil það að það sé kalt en það má ekki bara taka þátt þegar það er gaman.“

Rúrik sagði að leikmennirnir hefðu skoðað vandlega hvað fór úrskeiðis.

„Við tókum tvö skref aftur á bak, skoðuðum hvað við höfum verið að gera þegar við höfum verið að ná þessum úrslitum til þess að gleyma því ekki hvaðan við komum. Við töluðum um að fara ekki fram úr okkur, halda áfram að gera það sem við höfum gert vel. Að mínu mati er stígandi á æfingunum og ég hef mjög góða tilfinningu fyrir framhaldinu. Við erum allir á besta aldri og hungraðir í að ná meiri árangri.“

Hann telur að breytingarnar sem Hamrén er að innleiða hægt og bítandi muni reynast liðinu vel með tíma.

„Það er eðlilegt að hlutirnir riðlist aðeins til þegar stórar breytingar eiga sér stað. Við vorum að reyna nýja hluti gegn Sviss sem gengu ekki upp en við gefumst ekkert upp. Það er rétt hjá honum að við getum spilað boltanum betur, hann vill færa okkur á næsta skref hvað varðar að halda boltanum.“ 

Hann hvíldi gegn Frakklandi á dögunum enda hefur hann verið að glíma við minniháttar meiðsli en hann verður klár í slaginn.

„Ég kom tæpur inn í landsliðsverkefnið, lenti í smá meiðslum í aðdraganda þess en sem betur fer er ég mjög góður í dag og verð klár í slaginn gegn Sviss.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fótbolti

Arnór og Hörður báðir í úrvalsliði sjöttu umferðar

Fótbolti

Sarri tilbúinn að leyfa Cahill að fara frá Chelsea

Fótbolti

„Ekki í boði að spila neinn skítaleik“

Auglýsing

Nýjast

Útisigrar í báðum leikjum kvöldsins

Frakkar stungu af í seinni hálfleik

Valur stöðvaði sigurgöngu Keflavíkur

Rússar færast nær langþráðu EM-gulli

Gylfi og Sara Björk knatt­spyrnu­fólk ársins

Hópur valinn fyrir lokahnykkinn í undankeppni EM

Auglýsing