Arnar Gunnlaugsson skrifaði í gær undir nýjan samning við Víking Reykjavík út tímabilið 2025. Arnar hefur náð frábærum árangri með Víkinga og undir hans stjórn varð liðið tvöfaldur meistari á síðasta tímabili. Sögusagnir fóru á kreik um að Valsarar væru farnir að gæla við að næla í Arnar en hann þvertekur fyrir að félagið hafi sett sig í samband við sig.

„Nei, það gerðist aldrei," sagði Arnar um sögusagnirnar varðandi Val. „Auðvitað voru ýmsar sögusagnir í gangi en það var ekkert íslenskt félagslið sem hafði samband við mig. Valur er líka í toppmálum með Óla vin minn Jó við stjórnvölinn í dag."

Arnar er ánægður með að vera búinn að binda sig til lengri tíma hjá Víkingum með óuppsegjanlegum samningi af beggja hálfu og segir spennandi tíma fram undan í íslenskum fótbolta.

„Ég hlakka til baráttunnar við þessa stóru klúbba. Þeir munu svo sannarlega taka vel á sínum málum eftir þetta tímabil...Það eru skemmtilegir tímar fram undan í íslenskum fótbolta og ég hlakka til að vera hluti af því."

Ítarlegt viðtal við Arnar má sjá hér fyrir neðan.