Knattspyrnudeild Víkings Reykjavíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar neikvæðrar umræðu sem kom upp eftir úrslitaleik liðsins gegn FH um nýliðna helgi þar sem einstaka stuðningsmenn félagsins gerðust sekir um ósæmilega hegðun.

„Í kjölfar glæsilegs sigurs Víkings í Mjólkurbikarkeppni KSÍ, þriðja árið í röð, hefur komið upp neikvæð umræða um framkvæmd leiksins og hegðun stuðningsmanna," segir í yfirlýsingu Víkinga.

„Knattspyrnufélagið Víkingur harmar mjög framkomu einstakra stuðningsmanna sem settu ljótan svip á leikinn. Hátt í 3000 stuðningsmenn Víkings voru á leiknum sem nær allir hegðuðu sér óaðfinnanlega en nokkur skemmd epli settu ljótan blett á frábæra stuðningsmannasveit."

Félagið hefur óskað eftir myndum og upptökum úr öryggiskerfi vallarins í þeim tilgangi að ná tali af þessum mönnum. Öll gæsla á leiknum var í höndum Knattspyrnusambandins og komu félögin ekki að því.

Mbl.is greindi frá því í gær að sjálf­boðaliði í fót­bolta­gæslu á Laug­ar­dals­velli seg­ist ekki munu taka þátt í gæslu á fleiri bikarleikj­um eft­ir bikarleik Vík­ings gegn FH, sem fram fór í Laug­ar­dal í fyrradag. Vís­ar hann til ölv­un­ar og slæmr­ar hegðunar stuðnings­manna.