Fyrrum tenniskappinn Sergiy Stakhovsky er einn af þeim sem berst gegn innrás Rússa í Úkraínu. Sergiy rann blóðið til skyldunnar og ferðaðist frá heimili sínu í Búdapest til Úkraínu og skildi við fjölskyldu sína í Ungverjalandi.
,,Ég trúði ekki því sem ég var að sjá og var um leið að reyna skilja hvar fjölskylda mín væri, hvað hún væri að gera og hversu slæmt þetta í raun og veru væri," segir Sergiy Stakhovsky í samtali við BBC um líðanina þegar að hann frétti af innrás Rússa í Úkraínu.
Mánuði fyrir innrásina hafði Sergiy verið að spila í undankeppni Opna ástralska meistaramótsins í Tennis en tap þar leiddi til þess að hann ákvað að binda enda á 19 ára feril sinn sem atvinnumaður í tennis.
Um leið og hann frétti af innrás Rússa í símtali við foreldra sína sem búa í Kænugarði vissi Sergiy hvert sitt næsta skref yrði. Á þeim tíma var hann í fríi með fjölskyldu sinni í Dúbaí og fór með þau í flýti til Búdapest þar sem þau hafa búið undanfarin ár.
Þegar komið var til Búdapest spurði eiginkona hans fyrir um það hvað það væri sem hann ætlaði sér að gera.
,,Ég gaf henni svar sem hún vildi ekki heyra, hún fór í uppnám. Ég hafði verið fulltrúi Úkraínu á alþjóðavettvangi í rúm 17 ár og gat ekki hugsað mér að vera einn af þeim sem hlyti þau forréttindi að halda mig frá því sem er að eiga sér stað í heimalandi mínu."
Sergiy pakkaði niður nauðsynjum og segist hafa laumast út af heimili sínu. ,,Börnin mín voru að lesa og horfa á teiknimyndir og ég ákvað að ónáða þau ekki. Sá eini sem sá mig fara var yngsti sonur minn og hann spurði mig: 'Pabbi, hvert ertu að fara?' Ég var með bakpokann á mér og sagðist koma fljótt aftur.
Myndi ekki hika
Leið Sergiys lá fyrst til Bratislava í Slóvakíu. Þar náði hann í nauðsynlegan búnað fyrir sig og samlanda sína, búnað fyrir átök. Skotheld vesti og hjálma. Síðan lá leið hans að landamærumum Úkraínu.
Þar hitti hann félaga sinn og þeir héldu til Lviv, þar gistu þeir í eina nótt áður en þeir héldu til Kænugarðs að hitta föður og bróður Sergiys en Sergiy hafði skipulagt flóttaleið fyrir móður sína og aðra ættingja út úr Úkraínu.
Sergiy var úthlutað í herdeild og í henni hefur hann verið síðan þá. ,,Fólkið sem bjó hérna átti þetta ekki skilið. Þau eru ekki hluti af þessu stríði, þau vildu þetta ekki. Þetta voru bara almennir borgarar."
Hann segist ekki muna hika ef hann kemst í návígi við rússneskan hermann. ,,Ég veit hvað ég myndi gera.
Ítarlegt viðtal við Sergiy Stakhovsky við BBC má lesa hér.