Fyrirliði Arsenal, Granit Xhaka gerir ráð fyrir að fara í stutt frí í næsta mánuði þegar eiginkona hans á von á fyrsta barni þeirra hjónanna.

Eiginkona Xhaka, Leonita Lekaj, á von á barni um miðjan október og ætlar Xhaka að taka sér frí til að vera eiginkonu sinni til aðstoðar.

Miðjumaðurinn var spurður út í ákvörðun Haris Seferovic að draga sig úr landsliðshópnum til að vera með eiginkonu sinni stuttu eftir að hafa eignast barn og stóð hann með Seferovic.

„Það eru hlutir sem eru mikilvægari í lífinu en leikir í knattspyrnu, þar á meðal að verða vitni þegar þú ert að eignast börn. Ég á von á því að gera það sama þegar ég eignast barn í næsta mánuði.“

Fari svo mun Xhaka missa af leikjum með Sviss í undankeppni EM 2020 en ef fæðingin dregst á langin eða barnið lætur sjá sig snemma gæti Xhaka misst af leikjum með Arsenal.