Spænski blaðamaðurinn Guillem Balague, sem er vel að sér í málefnum spænska fótboltans segir á twitter-síðu sinni að líklegast sé að Xavi muni taka við stjórnartaumunum hjá karlalliði Barcelona í fótbolta.

Ronald Koeman var sagt upp störfum í gærkvöldi eftir tap gegn Rayo Vallacano í spænsku efstu deildinni. Koeman var í 14 mánuði við stjórnvölinn hjá Börsungum en starfsumhverfi hans hefur verið erfitt vegna fjárhagsörðugleika félagsins.

Xavi lék við góðan orðstír hjá Katalóníufélaginu frá 1998 til 2015 en miðvallarleikmaðurinn fyrrverandi hefur svo stýrt katarska úrvalsdeildarliðinu Al Sadd frá árinu 2019.

Hann hefur verið orðaður við starfið við þjálfun uppeldisfélags síns síðustu misserin.

Barcelona situr í tíunda sæti spænsku efstu deildarinnar með 15 stig eftir níu leiki.

Liðið er sex stigum á eftir Real Madrid, Sevilla, Real Betis og Real Sociedad sem eru jöfn að stigum við topp deildarinnar.