Arsene Wenger sem var knattspyrnustjóri karlaliðs enska knattspyrnufélagsins Arsenal frá 1996 til 2018 og varð enskur meistari þrisvar sinnum og enskur bikarmeistari sjö sinnum er þessa dagana að kynna bók sem fjallar um tíma hans hjá Lundúnarfélaginu.

Þegar Wenger ræddi við blaðamann um bókina var hann spurður hvaða liðum og leikmönnum honum þótti erfiðast að mæta þegar hann stýrði Arsenal. Margir myndu halda lið Manchester United undir stjórn Sir Alex Ferguson eða Chelsea á meðan José Mourinho var við stjórnvölinn væru Frakkanum efst í huga í þeim efnum.

Svo er hins vegar ekki þar sem hann nefndi Wimbledon á þeim tíma sem hann kom til Englands sem erfiðasta andstæðing sinn. Wimbledon sem gekk undir nafninu The Crazy Gang var lið sem innihélt leikmenn á borð við Vinnie Jones og þar var ekkert gefið eftir hvað líkamlega hluta knattspyrnunnar varðar.

Liðið féll svo úr ensku úrvalsdeildinni keppnistímabilið 1999 til 2000 og þurfti Wenger þá ekki að hafa áhyggjaur af þeim lengur. Þegar Wenger var beðinn um að nefna leikmenn sem erfitt var að mæta nefndi hann Roy Keane sem var fyrirliði Manchester United lungann af stjóratíð franska hagfræðingsins hjá Arsenal.

Þá nefndi hann annan harðhaus, Alf-Inge Haaland sem spilaði með Leeds og Manchester City en norski miðvallarleikmaðurinn er ekki oft ofarlega í huga þeirra sem rifja upp krefjandi mótherja frá tíma sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Sjálfsævisagan sem Wenger að gefa út ber nafnið My Life in Red and White og kemur út í verslunum í Englandi og annars staðar í Evrópu í þessari viku.