Wimbledon-mótinu í tennis hefur nú verið aflýst vegna COVID-19 en þetta kemur fram í tilkynningu um málið á vefsíðu mótsins. Mótið átti að fara fram í 134 sinn 29. júní næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn frá seinni heimsstyrjöldinni sem mótinu hefur verið frestað.

„Öryggi og heilsa þeirra sem koma saman til að gera mótið að veruleika eru okkur fremst í huga,“ segir í tilkynningunni. Skipuleggjendur mótsins hafa fylgt tilmælum breskra yfirvalda þegar kemur að faraldrinum og voru ýmsir möguleikar á borðinu, til dæmis að mótið færi fram síðar í sumar.

Niðurstaðan varð þó sú að mótinu verði aflýst til að vernda stóran hóp fólks. Allir þeir sem keyptu miða á mótið fá þá endurgreidda og fá þann möguleika að ná sér í miða á mótið á næsta ári.

„Við teljum, í ljósi heimsfaraldursins, að þegar allt kemur til alls sé það rétta ákvörðunin að aflýsa leikunum og einblína þess í stað á það hvernig við getum notað víðtækar auðlindir okkar til að hjálpa meðlimum samfélagsins,“ sagði Ian Hewitt, stjórnarformaður AELTC.