Brasilíski miðjumaðurinn Willian viðurkenndi í samtali við fjölmiðla að hann hefði verið ósáttur með hversu mikið hann þurfti að dvelja á bekknum á nýafstöðnu tímabili hjá Chelsea.

Þrátt fyrir það segist hann virða skoðun Antonio Conte, þjálfara Chelsea, sem er líklegast á útleið frá félaginu.

Willian lét óánægju sína í ljós á Instagram eftir úrslit enska bikarsins þegar hann faldi Conte með hinum ýmsu táknum (e. emojis).

Var hann valinn leikmaður ársins af liðsfélögum sínum en hann á eitt ár eftir af samningi sínum og Manchester United hefur sýnt honum áhuga.

„Ég var ánægður með spilamennsku mína, ég gerði mitt besta og lagði mig allan fram en það var erfitt að þurfa oft að sitja á bekknum. Þrátt fyrir það virði ég ákvörðun þjálfarans og nú ætla ég bara að einbeita mér að HM.“