Maurizio Sarri, nýráðinn knattspyrnustjóri Chelsea, er ekki par sáttur við liðsmann sinn, brasilíska landsliðsmanninn Willian sem mætti ekki á æfingu liðsins á föstudaginn var eins og honum hafði verið uppálagt að gera. 

Willian hafði verið í fríi eftir þátttöku sína með Brasilíu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar, en átti að mæta aftur í herbúðir Chelsea fyrir síðustu helgi. 

Hann hefur verið orðaður við brottför frá félaginu í sumar, en Manchester United, Real Madrid og Barcelona eru talin hafa áhuga á þjónusta framherjans. 

Sarri sagði í samtali við fjölmiðla í gær að hann vildi ræða við leikmanninn áður en hann tjáði sig almennilega um stöðu mála hjá honum. 

Ítalski knattspyrnustjórinn er hins vegar ekki sáttur við að leikmaður sinn hafi ekki mætt til æfinga á réttum tíma.