Franska knattspyrnufélagið PSG tilkynnti í dag að félagið hefði samið við hollenska landsliðsmanninn Gini Wijnaldum um að leika með liðinu næstu árin.

Samningur Wijnaldum við Liverpool rennur út um næstu mánaðamót og þar af leiðandi kemur Wijnaldum til PSG á frjálsri sölu.

Lengi vel leit út fyrir að Wijnaldum væri á leið til Barcelona en PSG bauð betur og klófesti kappann.

Wijnaldum verður í eldlínunni með Hollandi í lokakeppni Evrópumótsins sem hefst á morgun. Hollenska liðið er þar í riðli með Austurríki, Norður-Makedóníu og Úkraínu en fyrsti leikur liðsins er við Úkraínumenn á sunnudaginn kemur.