Russell Westbrook varð í nótt stigahæsti leikmaðurinn í sögu Oklahoma City Thunder sem hét áður Seattle Supersonics og komst með því upp fyrir Gary Payton.

Westbrook var valinn í nýliðavalinu af Seattle Sonics sem flutti yfir til Oklahoma sama sumar og er þetta ellefta tímabil hans í deildinni.

Hann komst upp fyrir Kevin Durant fyrr á þessu tímabili og vantaði aðeins fimm stig til að komast upp fyrir stjörnubakvörðinn Payton sem var síðar kosinn inn í frægðarhöll NBA-deildarinnar.

Russell er með augastað á fleiri metum sem Payton á en hann er í öðru sæti yfir flestar stoðsendingar og vantar 724 sendingar til að ná Payton sem var yfirleitt kallaður Hanskinn (e. The glove).

Þá er Westbrook í þriðja sæti yfir flesta stolna bolta og flest fráköst í sameiginlegri sögu Oklahoma City Thunder og Seattle Supersonics.