Wayne Rooney sýndi á sér nýja hlið í dag þegar DC United sýndi frá Rooney leika listir sínar með körfubolta en Rooney var um árabil einn besti knattspyrnumaður heims.

Rooney samdi við DC United síðasta sumar eftir langan og farsælan feril í ensku úrvalsdeildinni og með enska landsliðinu.

Hann sló í gegn með liði DC United í MLS-deildinni og virðist kunna vel við lífið í Bandaríkjunum þar sem hann er reglulegur gestur hjá öðrum íþróttaliðum í Washington líkt og Wizards og Capitals.

Bretar eru í fremstu röð í flestum íþróttum en körfubolta hefur ekki tekist að slá í gegn í Bretlandi. Þrátt fyrir það virtist Rooney vera nokkuð lipur með boltann á myndunum sem sjá má hér fyrir neðan.