Manchester City hefur ákveðið að refsa bakverðinum Kyle Walker en hann braut reglur enskra stjórnvalda um útöngubann vegna kórónaveirunnar með því að fá vændiskonur í heimsókn til sín í síðustu viku.

Nokkrum klukkustundum áður hafði Walker sent skilaboð á samfélagsmiðla sína þar sem hann hvatti almenning til þess að halda sig heima fyrir vegna faraldursins. Það sama hafði Jack Grealish, fyrirliði Aston Villa, gert áður en hann fór í partý hjá liðsfélaga sínum og klessukeyrði bíl sinn á leið til baka úr partýinu.

Walker hefur beðist afsökunar á atvikinu og Manchester City sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hegðun hans var fordæmd. Nú hefur félagið tekið þá ákvörðun að refsa kappanum.

Þessi 29 ára gamli knattspyrnumaður hefur verið í vandræðum í einkalífi sínu undanfarið en hann og æskuást hans, Annie Kilner, slitu samvistum fyrr á þessu ári eftir að upp komst um framhjáhald Walker. Þau höfðu verið kærustupar í níu ár og þekkst frá því þau voru táningar og eiga þrjá syni saman.