Kyle Walker lék síðustu tíu mínúturnar í 1-1 jafntefli Manchester City og Atalanta í markinu eftir að Claudio Bravo var vikið af velli. Hann er ekki fyrsti maðurinn sem neyðist til að taka á sig að skella á sig markmannshönskunum.

Claudio Bravo kom inn sem varamarkvörður í gær eftir að Ederson kvartaði undan meiðslum í hálfleik en Bravo var vísað af velli á 81. mínútu leiksins.

Walker var þá reiðubúinn að taka markmannsstöðuna og varði eitt skot á þeim tíu mínútum sem hann fékk í leiknum en mönnum hefur tekist misvel að leysa markmannsstöðuna í gegnum tíðina.

Leikmenn á borð við Pele, Bobby Moore, Vinny Jones og fleiri hafa skellt sér í markið í neyð en við tókum saman fimm leikmenn sem hafa þurft að taka fram markmannshanskana í neyð á undanförnum árum.

fréttablaðið/getty

Rio Ferdinand, 2008. Manchester United - Portsmouth
Enski miðvörðurinn þurfti að skella sér í markið eftir að Tomasz Kuszczak var vísað af velli í bikarleik United og Portsmouth. Edwin van der Sar fór meiddur af velli fyrr í leiknum og Kuszczak fékk reisupassann um miðbik seinni hálfleiks.

Rio þurfti strax að takast á við vítaspyrnu og tókst ekki að koma í veg fyrir sigurmark Sulley Muntari þegar Hermann Hreiðarsson og félagar fóru áfram í undanúrslit bikarsins.


fréttablaðið/getty

John Terry, 2006. Reading - Chelsea

Terry lék síðustu mínútur leiksins í markinu eftir að Petr Cech og Carlo Cudicini fóru báðir meiddir af velli vegna alvarlegra höfuðmeiðsla í leiknum sem Cech höfuðkúbubrotnaði á fyrstu mínútum leiksins.

Eina mark leiksins var skráð sem sjálfsmark Ívars Ingimarssonar og fóru tvö rauð spjöld á loft í leiknum sem skyggir á frammistöðu Terry í markinu.

fréttablaðið/getty

Harry Kane, 2014. Tottenham - Asteras Tripoli

Markahrókurinn var búinn að skora fyrstu þrennu sína á ferlinum í leiknum þegar Hugo Lloris var vísað af velli á 87. mínútu leiksins.

Á þeim tímapunkti var Tottenham búið að nota allar þrjár skiptingarnar og skellti Kane sér því í markið en honum tókst ekki að halda hreinu.

Gríska félagið skoraði sárabótarmark á 89. mínútu leiksins í 5-1 sigri Tottenham.

fréttablaðið/getty

Mia Hamm, 1995. Bandaríkin - Danmörk

Mia Hamm sem er af mörgum talin ein af bestu knattspyrnukonum allra tíma stóð vaktina síðustu mínútur leiksins í leik Bandaríkjanna og Danmerkur á HM í knattspyrnu árið 1995.

Bandaríska liðið var nýbúið að nota síðustu skiptingu sína þegar Briana Scurry, markvörður liðsins, meiddist og þurfti að koma af velli.

Það kom ekki að sök því Hamm leysti hana af síðustu mínútur leiksins í bandarískum sigri.

fréttablaðið/getty

John O'Shea, 2007 - Tottenham - Manchester United

Norður-Írinn var þekktur fyrir fjölhæfni sína enda var honum stillt upp í flestum stöðum vallarins undir stjórn Sir Alex Ferguson, þar á meðal í markinu í öruggum sigri á Tottenham.

Hann náði einu sinni að loka vel á sókn Tottenham en naut góðs af því að koma inn á í stöðunni 4-0 þegar skammt var til leiksloka.

fréttablaðið/getty

Jose Enrique, 2012 - Newcastle - Liverpool

Vinstri bakvörðurinn lék síðustu 13. mínútur leiksins í marki Liverpool eftir að landi hans, Pepe Reina, nældi sér í rautt spjald fyrir að hafa skallað James Perch.

Enrique var þarna að leika á gamla heimavelli sínum og tókst að halda hreinu þegar Liverpool sóttist eftir því að minnka muninn í 2-0 sigri Newcastle.

fréttablaðið/getty

Phil Jagielka, 2006 Sheffield United - Arsenal

Miðvörðurinn þurfti nokkrum sinnum að skella sér í markið hjá Sheffield United enda taldi Neil Warnock, þáverandi knattspyrnustjóri félagsins, ekki þörf á því að hafa varamarkmann á bekknum í leikjum.

Jagielka lék seinasta hálftímann í óvæntum 1-0 sigri Sheffield á Arsenal árið 2006 og varði meðal annars frá Robin Van Persie.

fréttablaðið/getty

Jan Koller, 2002 - Dortmund - Bayern

Tékkneski framherjinn sem var tveir metrar á hæð lék síðustu tuttugu mínúturnar í marki Dortmund gegn Bayern og var verðlaunaður með sæti í liði dagsins sem markmaður.