Það voru skiptar skoðanir á því þegar Bryson DeChambeau náði sínum fyrsta risatitli síðastliðinn sunnudag. Á sinn hátt er auðvelt að gleðjast með kylfingum sem vinna sinn fyrsta risatitil en hegðun DeChambeaus hefur oft farið í taugarnar á áhorfendum og meðspilurum. Fyrir golfáhugamenn hefur verið áhugavert að fylgjast með breytingunni á spilamennsku hans síðan heimsfaraldurinn skall á enda Bryson búinn að bæta við sig 20 kílóum af vöðvum. Það hefur skilað sér í lengri höggum, fleiri sóknarfærum og sigrum á tveimur mótum, þar á meðal fyrsta risatitlinum á Opna bandaríska meistaramótinu.

Yfirburðirnir sem Bryson sýndi á lokadegi Opna bandaríska meistaramótsins eru sjaldséðir. Keppinautar Brysons fyrir lokadaginn áttu það sameiginlegt að ráða ekkert við erfiðan Winged Foot-völlinn. Aðeins einn kylfingur lék undir pari á lokadegi mótsins, Bryson kom í hús á þremur höggum undir pari. Fyrir lokadaginn var Bryson tveimur höggum á eftir Matthew Wolff en lauk keppni átta höggum á undan Wolff og eini kylfingurinn sem lék mótið á undir pari.

Með því tókst Bryson að brjóta ísinn og vinna sitt fyrsta risamót. Í ársbyrjun hafði Bryson aldrei endað meðal tíu efstu á risamóti og ekki tekist að standa undir væntingunum sem gerðar voru til hans þegar hann kom inn á mótaröðina. Á lokaári sínu sem áhugakylfingur vann Bryson bæði Opna bandaríska áhugamannamótið í golfi og háskólatitilinn í höggleik. Með því fetaði Bryson í fótspor kylfinga á borð við Jack Nicklaus, Phil Mickelson og Tiger Woods sem höfðu unnið þessi tvö mót á sama ári.

Það má því búast við því að hann geri atlögu að fleiri risatitlum á næstu árum. Að mörgu leyti á Bryson þetta breytingum á líkamsbyggingunni að þakka enda er hann einn af högglengstu kylfingum mótaraðarinnar. Á síðasta ári hafði Bryson orð á því að hann vildi verða sterkari til að lengja höggin. Hlé sem var gert á mótaröðinni vegna kórónaveirunnar nýttist því vel því þar fékk Bryson tíma til að fara í breytingar á líkamsbyggingunni og bæta 20 kílóum af vöðvum á sig. Að sögn Brysons eyddi hann hverjum degi hjá þjálfara þar sem þeir fullkomnuðu sveifluna með nýju líkamsbyggingunni og borðaði eins og hestur á meðan. Þungar máltíðir og níu próteinsjeikar á dag skiluðu honum þessum skyndilega vexti. Það hefur ekki komið niður á öðrum höggum því hann var bestur í kringum flatirnar á Winged Foot.

Aðspurður sagðist Birgir Leifur Hafþórsson, sigursælasti kylfingur Íslands, ekki eiga von á því að nú kæmi vaxtarræktarátak hjá kylfingum í fremstu röð.

„Golfíþróttin er búin að vera að þróast mjög mikið á undanförnum árum, bæði í líkamlegu atgervi og þjálfun í tækni á sveiflu og stutta spilinu. Íþróttin er samspil sprengikrafts, fínhreyfinga og hugarfars en tölfræðin er farin að skipa stóran sess í golfi eins og öðrum íþróttum. Það þarf allt að vera í standi til þess að standa uppi sem sigurvegari á hvaða mótaröð sem er í dag.

Bryson hefur svo sannarlega farið alla leið í sinni nálgun að golfleiknum. Hann leggst mjög djúpt yfir alla þætti leiksins og fer sínar eigin leiðir. Maður verður að bera virðingu fyrir vinnuseminni og eljuseminni í honum til að ná langt þótt hann sé ekki í uppáhaldi hjá mér. Nýjasta uppátæki hans, að bæta á sig öllum þessum vöðvamassa, drekka níu próteinsjeika á dag til þess að fá meiri kraft og lengd í höggin sín, hefur skilað honum árangri og hann hefur fengið mikla athygli í golfheiminum. Hann nær að beisla þennan kraft vel en það er vissulega furðulegt að geta bætt á sig 20 kílóum af vöðvum á svona stuttum tíma og spurning hversu hollt það er fyrir kerfið. Það munu eflaust einhverjir reyna að leika þetta eftir en óvíst er hvort þeim takist það.“

Bryson er ákveðinn frumkvöðull í íþróttinni. Hann reiknar út formúlur fyrir hverja flöt til að undirbúa pútt og var honum bannað að nota áttavita við lestur á flöt á sínum tíma. Þá var hann fljótur að reikna út kosti þess að hafa flaggstöngina í holunni við að pútta þegar kylfingar fengu að velja. Það leiddi til nafnbótarinnar brjálaði vísindamaðurinn.

Hann hefur einnig fengið sinn skerf af gagnrýni fyrir hæga spilamennsku. Á síðasta ári setti PGA reglur um hæga spilamennsku eftir að andstæðingar Brysons kvörtuðu og sögðu að þeir misstu taktinn við að bíða á milli högga.

„Mörgum finnst mjög spennandi að horfa á hann en mér hefur fundist hann hafa komist upp með of mikið án þess að það hafi verið tekið nógu mikið á því, eins og hæg spilamennska hans. Bryson er einstakur leikmaður sem er það skemmtilega við hann en það leiðinlega við hann er að hann virðist alltaf vera að daðra við línuna og sjá hvað hann kemst upp með. Það er því fróðlegt að sjá hverju hann tekur upp á næst,“ segir Birgir.

Tæplega tveggja ára gömul mynd af Bryson sýnir ótrúlega breytingu á líkama hans á stuttum tíma.