Ekki er mögulegt að kaupa vörur merktar körfuboltamanninum fyrrverandi, Kobe Bryant, í netverslunum Nike. Bryant lést í þyrluslysi á sunnudaginn síðastliðinn og vilja forráðamenn Nike koma í veg fyrir að viðskiptavinir fyrirtækisins hagnist á þessum sorgartíðindum með endursölu á vörunum.

Vörur merktar Bryant seldust upp í upphafi vikunnar og ekki verður framleiddar fleiri vörur merktar honum í bráð. Nike ætlar að taka sér tíma í að hugsa næstu skref þegar kemur að vörum tengdri þessari körfuboltagoðsöðgn. Þegar reynt er að kaupa vörur sem merktar eru Bryant er ekki hægt að halda áfram með viðskiptin en þess í stað kemur eftirfarandi yfirlýsing á skjáinn.

„Líkt og íþróttaheimurinn allur og stuðningsmenn víðs vegar um heiminn erum við algjörlega miður okkur yfir þessum sorgarfregnum. Við vottum fjölskyldu og þeim sem standa Kobe og Giannu næst okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum."

Bryant skrifaði undir samning við Nike árið 2003 og varð um leið einn af helstu talsmönnum fyrirtækisins. Talið er að Nike hafi borgað honum um það 16 milljónir dollara á ári fyrir að klæðast vörum frá fyrirtækinu. Eftir að Bryant lagði skóna á hilluna árið 2016 hefur Nike gefið út strigaskó undir vörumerkinu "Black Mamba" til heiðurs hans.