Harpa Rut Jónsdóttir varð í upphafi vikunnar svissneskur meistari í handbolta kvenna með liði sínu Zug, en fyrr á þessu ári varð liðið bikarmeistari. Harpa Rut fluttist til Sviss fyrir fjórum árum og hefur leikið með Zug síðastliðin tvö keppnistímabil.

Harpa Rut lék síðast hér á landi með KA/Þór keppnistímabilið 2014 til 2015. Síðan þá hefur hún leikið erlendis, fyrst í Danmörku og svo á svissneskri grundu.

„Ég var í lýðháskóla í Danmörku og kynntist þar svissneskum strák. Við fluttum saman til Sviss og fyrir tveimur árum gekk ég til liðs við Zug. Þar hefur mér liðið mjög vel og ég bætt mig mikið inni á handboltavellinum,“ segir hún.

Harpa Rut er ein af þeim sem koma til greina í kjöri á besta leikmanni svissnesku efstu deildarinnar á nýlokinni leiktíð, en kjörið stendur yfir til 30. maí.

„Við erum með ungt lið og stefnan fyrir tímabilið var að vera í toppbaráttu, en okkur var ekki spáð titlinum. Við byrjuðum tímabilið ekkert sérstaklega vel en við þéttum raðirnar eftir áramót og höfum haft betur í síðustu tólf leikjum okkar í deild og bikar,“ segir línumaðurinn um tímabilið.

„Það var geggjað að ná að landa titlinum og ég er eiginlega enn þá í skýjunum. Að vinna tvöfalt var ekki í kortunum um áramótin, en þetta hefur heldur betur þróast í skemmtilega átt. Það var líka frábært að stuðningsmenn okkar gátu mætt á leikina í úrslitaviðureigninni.

Tíu stuðningsmönnum hvors liðs var heimilt að mæta á leikina. Það er hefð fyrir því í Sviss að stuðningsmenn skapi stemmingu með kúabjöllum og okkar frábæru stuðningsmenn bjuggu til geggjað andrúmsloft með kúabjöllunum og trommuslætti. Það var frábært að geta fagnað með þeim loksins,“ segir línumaðurinn sterki.

„Það er spilaður mjög hraður handbolti hérna í svissnesku deildinni og mikil áhersla á líkamlegan styrk þar að auki. Það eru fimm sterk lið í deildinni og baráttan í úrslitakeppninni var mjög hörð,“ segir hún.

„Ég sé alls ekki eftir því að hafa flutt til Sviss. Hér hef ég komið mér mjög vel fyrir og mér finnst eins og ég sé orðin ein af fjölskyldunni hjá Zug. Það er mjög góð umgjörð í kringum liðið og ég sé fram á að vera hérna áfram næstu árin,“ segir norðankonan.

Handboltavertíðin hefur gengið afar vel hjá fjölskyldu Hörpu Rutar en sama dag og Zug varð bikarmeistari varð systir hennar, Anna Mary Jónsdóttir, deildarmeistari með uppeldisfélagi Hörpu Rutar, KA/Þór. Það var fyrsti deildarmeistaratitillinn í sögu félagsins