Íslenska liðið er enn með örlögin í eigin höndum þegar fjórar umferðir eru eftir af undankeppni EM 2020 en ljóst er að Strákarnir okkar þurfa að vinna Andorra, Moldóvu og annaðhvort Tyrkland eða Frakkland til að öðlast þátttökurétt á EM 2020.

Verðskuldað 2-4 tap gegn Albaníu gerði stöðuna enn erfiðari og var íslenska liðið ekki með sjálfu sér í leiknum frá byrjun.

Íslenska liðið lék betur eftir því sem líða tók á leikinn en mistök í varnarleiknum urðu liðinu að falli þegar Albanir skoruðu í fyrsta sinn fjögur mörk eða meira í leik í rúm tíu ár.

Hægri hlið varnarlínu Íslands var oft berskjölduð í leiknum í Elbasan og leituðust Albanir mikið eftir því að nýta vængbakvörðinn vinstra megin til að sækja á Ísland þar sem Hjörtur Hermannsson og Rúnar Már Sigurjónsson voru.

Rúnar Már átti lipra takta fram á við í leiknum en líkt og með Hjört var honum enginn greiði gerður að vera leikið út úr stöðu og áttu þeir erfitt uppdráttar varnarlega. Fyrir vikið opnaðist mikið pláss fyrir Ermir Lenjani og síðar Odise Roshi sem áttu stóran þátt í mörkum Albaníu.

Það kom betur í ljós í Albaníu hversu mikið íslenska liðið saknar Jóhanns Bergs Guðmundssonar í leikjum sem er duglegur að falla niður og aðstoða bakvörðinn enda vanur því hlutverki með félags- og landsliði.

Þegar rýnt er í tölfræðina kemur mikilvægi Jóhanns bersýnilega í ljós, í síðustu sjö leikjum sem Jóhann hefur misst af eftir lokakeppni HM, ef janúarverkefnin eru tekin út úr myndinni hefur íslenska liðið ekki átt góðu gengi að fagna.

Þrátt fyrir að þarna séu leikir gegn Belgum, Sviss og Frakklandi er alvarlegt að sjá að markatalan í leikjunum sjö án Jóhanns er 7-21, uppskeran einn sigur gegn Moldóvu, eitt jafntefli gegn Katar og fimm tapleikir.

Á sama tíma hefur Ísland leikið fimm leiki með Jóhann innanborðs, unnið þrjá þeirra gegn Tyrklandi, Andorra og Albaníu, gert jafntefli gegn Frakklandi og tapað gegn Sviss með markatöluna 8-5.