Ólafur Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðablik, settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á föstudögum á Hringbraut. Hann sat þar með Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs og fóru yfir landsleikinn gegn Venesúela sem Ísland vann 1-0.

Ólafur segir að það sé vont fyrir alla að það sé alltaf verið að bera liðið saman við landsliðið sem fór á EM og HM.

„Það sem er vont fyrir þetta lið og Arnar landsliðsþjálfara er að það er alltaf verið að bera þetta lið saman við gamla góða liðið. Það voru frábærir tímar og virkilega gott lið. Góður bragur og klár strúktur.

Við segjum að það sé gott að vinna leikinn en þá spyr ég mig, er gott að vinna leikinn ef bragurinn hefur ekki verið nógu góður?

Það sem skiptir meira máli er að það sé stígandi og bæting á ákveðnum leikþáttum milli leikja. Það er slæmt að við viljum fá úrslit í illa spiluðum leik en spila vel en einhverja hluta vegna ekki að vinna.

Ég er ekki að segja að það skipti ekki máli að vinna heldur að mér finnst þurfa að vera ákveðinn stígandi og stöðuleiki þar sem liðið verður fastmótað. Leikstíllinn og svo framvegis frá leik til leikja. Það höfum við verið að glíma við að ná er einhver tröppugangur. Þetta hefur verið eitt skref fram og fleiri til baka af ýmsum ástæðum.“

Hörður benti á að íslenska landsliðið hefði ekki gefið mörg færi á sér í leiknum og Rúnar Alex hefði aldrei þurft að verja og taka á stóra sínum.

Ólafur sagði að gamla liðið hafði skýr einkenni. „Við erum að leita að því og það hefur verið brokkgengt að finna þessi einkenni hjá liðinu og það er eitthvað sem ég sakna og vona að það komi. Maður getur ekki notað þennan leik til að vera dómbær á hvort allt sé orðið gott aftur eða ekki. En þetta hafa verið erfiðir tímar fyrir liðið og þjálfarana því pressan hefur verið þannig séð mjög mikil á frekar ungt lið.“

Hann benti á að erfitt sé að spá í leikinn á þriðjudag út frá þessum leik. „Það var ekkert í þessum leik sem gaf einhver fyrirheit hvernig leikurinn við Albaníu verður. Ég veit að eflaust eru þjálfararnir að leita að og koma inn hjá liðinu. Við erum finnst mér ekki ennþá þar, því miður, að þetta sé skýrt. Það skín allavega ekki í gegn.