Tillaga frá FIFA gæti gert það að verkum að það megi gera fimm skiptingar þegar knattspyrna snýr aftur eftir COVID-19. Deildirnar sjálfar myndu þó ákvarða hvort þær myndu nýta sér tillöguna. Flestar deildarkeppnir hafa verið að smíða saman plön um endurkomu og ætlar enska úrvalsdeildin að klára deildina frá 8. júní og ljúka henni 27. júlí samkvæmt The Times.

Samkvæmt Sky sports ætla félögin að hittast á fjarfundi á föstudag þar sem tillögurnar verða kynntar frekar, en þær ganga undir nafninu Project Restart. Ekki amalegt heiti það.

Samkvæmt The Guardian ætlar enska stjórnin að kynna næstu tillögur samkomubannsins og útgöngubannsins þar í landi sjöunda maí. Boris Johnson forsætisráðherra sagði í ávarpi sínu að Englendingar væru farnir að sjá til sólar í sinni baráttu en hvatti landa sína til að vera áfram á varðbergi. Íþróttir munu ekki byrja í landinu fyrr en ríkisstjórnin og þríeyki þeirra Breta eru orðin sátt við tölurnar í faraldrinum.

Sky greinir enn fremur frá því að enska úrvalsdeildin, sem og allar aðrar íþróttadeildir þar í landi, þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði áður en leyfi verður veitt fyrir íþróttaiðkun. Enska deildin stendur föst á því að klára þá 92 leiki sem eftir eru af tímabilinu. Gary Neville knattspyrnuspekingur sagði við Sky að hann hefði ekki mikla trú á því að enska deildin myndi leika fyrir framan áhorfendur fyrr en á næsta ári.

Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, sagði í sjónvarpsávarpi á sunnudag að liðin þar í landi gætu vonandi hafið æfingar 18. maí. Alls eru 12 umferðir eftir þar í landi en Juventus er á toppnum. Vincenzo Spadafora, íþróttamálaráðherra landsins, bætti þó við að hann væri að vinna náið með þríeyki Ítala og ekkert verði gert án þess samþykkis. Ítalir stefna að því að byrja deildina 2. júní.

Þjóðverjar hafa gefið það út að 322 megi vera inni á fótboltaleikvöngunum til þess að fótboltaleikur fari fram. Þar á bæ ætla menn að byrja að spila níunda maí. Hans-Joachim Watzke, framkvæmdastjóri Dortmund, sagði í viðtali við Sky í gær að ef fótboltinn færi ekki af stað þar í landi myndi þýska deildin lognast út af því mörg lið væru afar illa sett.

Spánverjar sendu frá sér tilkynningu í lok mars um að La Liga væri í ótímabundnu fótboltabanni. Í tilkynningunni segir að bannið sé í gildi þar til yfirvöld eru viss um að hægt verði að hefja leik að nýju án þess að áhætta sé tekin. Formaður deildarinnar, Javier Tebas, gaf það út að hann sæi þrjár dagsetningar fyrir sér til að byrja aftur. Sú fyrsta væri 29. maí, önnur sjöunda júní og sú þriðja 28. júní.

Aðalritari alþjóðlegu leikmannasamtakanna FIFPro, Jonas Baer-Hoffmann, segir að endurkoma fótboltans sendi vond skilaboð í samfélagið. „Það þurfa að koma leiðbeiningar um hvernig hægt sé að spila fótbolta aftur á öruggan hátt fyrir alla. Fótbolti er íþrótt með snertingum og við teljum að það þurfi að gæta fyllstu varúðar.

Er verið að senda rétt skilaboð út í samfélagið, er fótboltinn að hvetja til heilbrigðar endurkomu í fyrra líf eða erum við að senda slæm skilaboð um að aðrar reglur gildi fótboltaheiminum,“ spurði Baer-Hoffman.