Íslenska karlalandsliðið í körfubolta tapaði í dag fyrir Úkraínu á útivelli í undankeppni HM 2023, lokatölur 79-72. Með tapinu tók von Íslendinga, um sæti á HM, á sig þungt högg

Leikið var í Lett­landi vegna á­standsins í Úkraínu sem er til­komið vegna inn­rásar Rússa í landið.

Fyrir leikinn var Ís­land í 4. sæti síns riðils með sama stiga­fjölda og Georgía sem sat í 3. sæti með 11 stig.

Mikið jafn­ræði var með liðunum í fyrri hálf­leik og eftir fyrsta leik­hluta leiddi Ís­land með fjórum stigum, 14-18.

Leik­menn Úkraínu náðu hins vegar að bíta frá sér í öðrum leik­hluta og fóru inn til búnings­her­bergja í hálf­leik með tveggja stiga for­ystu, 35-33.

Tryggvi Snær Hlina­son var at­kvæða­mestur í liði Ís­lands í fyrri hálf­leiknum með 12 stig og fjögur frá­köst.

Jafn­ræði var á­fram með liðunum í síðari hálf­leik og tókst ís­lenska liðinu að snúa stöðunni sér í vil fyrir lok þriðja leik­hluta, 51-53.

Leikmenn Úkraínu komu sterkari til leiks í fjórða leikhluta og náðu að byggja upp fimm stiga forskot, það mesta sem sást í leiknum, á tímapunkti þar sem íslenska liðinu gekk erfiðlega sóknarlega.

Þá tóku hins vegar leikmenn Íslands við sér og náðu að brúa bilið og gera gott betur en það. Þegar fjórar mínútur voru eftir af fjórða leikhlutanum var Ísland komið einu stigi yfir, 64-65.

Úkraínska landsliðið reyndist þó vera sterkari aðilinn á lokamínútum leiksins og vann að lokum sjö stiga sigur, 79-72.

Tapið þýðir að Ísland er áfram með 11 stig í riðlinum þegar tvær umferðir eru eftir í undankeppninni. Það er sami stigafjöldi og Úkraína og Georgía eru með en Georgía er þessa stundina að spila gegn Ítalíu og vonast Íslendingar til þess að Ítalía sigli heim sigri þar.

Tryggvi Snær Hilnason var atkvæðamestur í liði Íslands í leiknum með 24 stig og 13 fráköst.