Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu var gestur í þættinum Íþróttavikan með Benna Bó sem var sýndur á Hringbraut síðastliðið föstudagskvöld. Í þættinum fór Þorsteinn yfir ýmsa hluti tengda landsliðinu, meðal annars möguleika Söru Bjarkar á að vera mögulega með á komandi Evrópumóti, síðasta ár landsliðsins og horfurnar fyrir stórmót ársins.

Þorsteinn segir undirbúning fyrir komandi Evrópumót sem fer fram í Englandi í sumar vera í fullum gangi. Ísland er í riðli með Frakklandi, Ítalíu og Belgíu á mótinu. ,,Það er ótrúlega mikið sem þarf að gera fyrir þetta stóra dæmi og að mörgu að huga. Við fundum nánast á hverjum degi þar sem við förum yfir stöðuna, hvað sé búið að klára og hvað eigi eftir að klára, stöðuna á verkefninu í heild sinni."

Þéttskipað ár framundan

Það er nóg um að vera hjá landsliðinu á þessu ári en auk þess sem liðið er að fara keppa á Evrópumótinu mun liðið taka þátt á sterku æfingamóti í Bandaríkjunum og keppa í undankeppni HM.

,,Við förum á æfingamót í Bandaríkjunum um miðjan febrúar, hörkumót þar sem við mætum Bandaríkjunum, Nýja-Sjálandi og Tékklandi. Síðan erum við að spila í undankeppni HM um miðjan apríl og lokaundirbúningurinn fyrir EM hefst síðan undir lok júní," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í Íþróttavikunni með Benna Bó.

Vongóður um þátttöku Söru á EM

Þorsteinn segist vera vongóður um að Sara Björk Gunnarsdóttir, leikmaður Lyon og íslenska landsliðsins, verði búin að ná sér að fullu eftir barnsburð fyrir Evrópumótið.

,,Maður vonast til þess (að hún verði með á EM) en hún þarf bara að koma sér í gang, byrja að spila hjá Lyon og þá er allt hægt."

Hann segir þó ekkert gefið í þessum efnum. ,,Auðvitað tekur þetta misjafnlega langan tíma hjá konum að jafna sig eftir barnsburð og ná fyrri styrk en þetta gengur vel hjá henni eins og er. Maður vonast bara til að það komi ekki bakslag í þetta og þá er allt hægt."

,,Hún er á fullu í þessu og er að vinna í þessu við góðar aðstæður og fær góðan stuðning. Maður er þokkalega bjartsýnn á að hún verði komin í gott stand og verði byrjuð að spila áður en að tímabilinu lýkur," sagði Þorsteinn landsliðsþjálfari um Söru Björk.

Sara Björk Gunnarsdóttir, gæti tekið þátt á EM með íslenska kvennalandsliðinu
GettyImages

Varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með vellina

Ísland mun spila leiki sína í riðlakeppni EM í Manchester og í Rotherham. Fyrsti leikur liðsins fer fram í Manchester á Manchester City Academy vellinum sem er notaður sem æfingavöllur fyrir yngri lið Manchester City, þá spilar kvennaliðs félagsins einnig á vellinum sem tekur aðeins 4.700 manns í sæti.

Seinni tveir leikir liðsins í riðlinum fara fram á New York vellinum í Rotherham. Sá völlur er aðeins stærri, tekur 12.000 manns í sæti en Þorsteinn viðurkennir að hafa orðið fyrir smá vonbrigðum þegar leikvellirnir voru gerðir opinberir.

,,Maður varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með vellina sem urðu fyrir valinu, það er nóg til af völlum þarna. Það að velja til dæmis Manchester City völlinn er frekar spes, 4700 manna völlur sem maður vonast til að 2000-3000 Íslendingar verði á. Völlurinn er of lítill og menn voru ekki að setja markið nógu hátt með tilliti til markaðsetningu mótsins."

Ísland leikur fyrsta leik sinn á EM á Manchester City Academy vellinum

Ánægður með stöðuna á hópnum

Þorsteinn segist vera ánægður með stöðuna á þeim hópi sem hann hefur úr að moða hjá íslenska landsliðinu. ,,Staðan er fín. Leikmenn hér heima eru að fara erlendis, taka skref sem verða vonandi bara góð fyrir þær. Hópurinn, það sem ég hef séð og skoðað, lýtur vel út."

Hann er síðan sérstaklega ánægður með framvindu liðsins á síðasta ári. ,,Ég notaði það til að skoða leikmenn, meðal annars með því að sjá hvernig einn leikmaður myndi nýtast í fjarveru annars. Ég breytti liðinu á milli leikja oft alveg helling og var ekkert endilega að verðlauna leikmenn fyrir góða leiki.

Það er alveg ljóst að Þorsteinn er gífurlega ánægður með svörin sem hann fékk í fyrra. ,,Ég var alltaf að hugsa um það hvað við þurftum að gera í mismunandi aðstæðum þannig að ég gæti verið búinn að mynda mér góðar skoðanir fyrir þetta ár hvernig liðið myndi verða," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í Íþróttavikunni með Benna Bó.

Hægt er að horfa á Íþróttavikuna með Benna Bó í heild sinni hér fyrir neðan.