Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, tjáði sig um úrskurð CAS, þar sem banni Manchester City frá þátttöku í Evrópukeppnum næstu tvö árin var aflétt, á blaðamannafundi í gær. Klopp sagði mánudaginn hafa verið vondan dag í knattspyrnusögunni.

„Ég er ánægður með að Manchester City geti leikið í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili, en á sama tíma tel ég mánudaginn ekki hafa verið góðan dag fyrir knattspyrnuna, ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Klopp á fundi sem haldinn var í aðdraganda leiks Liverpool gegn Arsenal sem fram fer í kvöld.

„Ég er ósáttur þar sem ég tel reglurnar um fjárhagslega háttvísi vera af hinu góða og þessi úrskurður geri þær reglur að litlu sem engu. Mér finnast reglurnar eiga að sjá til þess að takmarka eyðslu félaganna og freista þess að koma í veg fyrir að félög eyði um efni fram. Nú hefur ríkustu félögum verið gefið ákveðið forskot, sem er ekki heillavænlegt,“ segir Þjóðverjinn enn fremur.

Talið er að Pep Guardiola muni halda lykilleikmönnum sínum, sem hefðu mögulega yfirgefið félagið ef úrskurði UEFA hefði verið haldið til streitu. Þá muni Guardiola einnig fá 150 milljónir til að eyða í leikmenn í sumar. Manchester City, sem sækir Bournemouth heim í kvöld, er orðað við Kalidou Koulibaly, varnarmann Napoli, David Alaba, bakvörð Bayern München, Ferran Torres, vængmann Valencia og Lautaro Martinez, framherja Inter.