Andri Fannar Baldursson er í U-21 árs landsliði Íslands sem mætir Tékklandi í fyrri leik þjóðanna í umspili um sæti í lokakeppni EM á næsta ári. Hann telur Ísland eiga góða möguleika.

Fyrri leikurinn fer fram á Víkingsvelli á morgun og sá seinni ytra á þriðjudag. „Þetta eru tveir mjög spennandi leikir. Ég er sérstaklega spenntur fyrir leiknum hér heima, þar sem við erum með stuðninginn,“ segir Andri, en hann á níu A-landsleiki að baki.

„Við erum með mjög sterkt lið og vitum hvað við getum. Við eigum mjög góða möguleika á að vinna þá.“

Markmiðið í Hollandi einfalt

Andri gekk í sumar í raðir NEC Nijmegen í hollensku úrvalsdeildinni á láni frá Bologna á Ítalíu. „Ég er í góðu standi og er búinn að æfa vel. Ég fékk einhverja sýkingu í höndina snemma í Hollandi. Ég var settur á lyf og mátti ekki æfa í nokkra daga. Það hélt aðeins aftur af mér. Nú er það bara að vinna sig inn í liðið og ég hef fulla trú á að ég geri það.“

Andri var á láni hjá FC Kaupmannahöfn í fyrra. Þar ætlaði hann að ná dýrmætum mínútum undir beltið á háu stigi. Það gekk hins vegar ekki eftir. „Ég ætlaði auðvitað að fara til Danmerkur til að þroskast sem leikmaður og verða betri en það fór sem fór. Meiðslin spiluðu auðvitað mikið inn í, en sá tími er búinn og ég hef lært helling af því. Þetta voru auðvitað vonbrigði en svona er fótboltinn.“

Stefnir á að sanna sig

Andri er aðeins tvítugur en á þó að baki sextán leiki fyrir aðallið Bologna. Hann stefnir enn á að sanna sig á Ítalíu. „Það er draumur hjá mér að komast í byrjunarliðið hjá Bologna,“ segir Andri og bætir við að reynslan sem hann fékk með aðalliðinu á yngri árum hafi verið dýrmæt.

„Nú er ég kominn til Hollands til að bæta mig og fá fleiri mínútur. Vonandi gengur það vel. Þá get ég komið aftur til Bologna og allavega ýtt á byrjunarliðssæti,“ segir Andri Fannar Baldursson.