Íslandsdeild mannréttindasamtaka Amnesty International vonast til þess að Knattspyrnusamband Íslands noti tækifærið rækilega til að koma réttu skilaboðunum áleiðis, þegar það heimsækir Sameinuðu arabísku furstadæmin í nóvember, þar sem karlalandslið Íslands á að mæta Sádí-Arabíu í vináttuleik.

Þetta segir Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty á Íslandi.

KSÍ hefur þurft að þola töluverða gagnrýni fyrir að samþykkja að leika vináttulandsleik við Sáda, vegna stöðu mannréttinda í landinu. Réttindi kvenna, hinsegin fólks og fjölda minnihlutahópa hafa lengi verið fótum troðin í Sádí-Arabíu.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hefur áður svarað gagnrýninni með þeim hætti að sambandið geti nýtt vináttulandsleikinn við Sáda til að senda sterk skilaboð.

Sambandið sé til að mynda með konur í lykilstöðum og að Vanda geti haldið ræður með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif.

Íslandsdeild Amnesty tekur ekki afstöðu til ákvörðunar KSÍ um að spila leikinn. Vonast samtökin heldur til að KSÍ nýti þennan vettvang til að hafa áhrif.

„Amnesty vonar auðvitað að KSÍ noti tækifærið rækilega til þess að koma skilaboðum áleiðis og fordæma þau mannréttindabrot sem eru framin í Sádí-Arabíu,“ segir Anna.

Þá segir hún að almenningur og keppendur eigi að fá að njóta tjáningarfrelsis og segja skoðanir sínar án þess að þurfa að hræðast afleiðingarnar af því.

Anna gerir sér grein fyrir því að aðgerðir KSÍ í furstadæmunum í nóvember muni ekki valda straumhvörfum í landinu, en trúir þó að þær geti fengið einhverja til að sjá ný sjónarmið.

„Sumar breytingar gerast því miður mjög hægt,“ segir hún.

Að sögn framkvæmdastjórans tekur Amnesty almennt ekki afstöðu til íþróttaleikja á milli ákveðinna þjóða.

„Amnesty notar slíkar keppnir eða tímasetningar þeirra frekar til að benda á þau brot sem eiga sér stað í því ríki sem hýsir keppnina. Það gerum við nú varðandi HM í Katar og gerðum þegar vetrarólympíuleikarnir voru haldnir í Peking og einnig þegar Eurovision var haldið í Ísrael og Aserbaídsjan, svo ég nefni einhver dæmi,“ segir Anna.