Ansi sorgleg tíðindi bárust frá Kósóvó um helgina. Þá lést sautján ára gamli knattspyrnumaðurinn Erion Kajtazi eftir að hafa hnigið niður í leik.

Kajtazi var að spila með Trepca gegn A&N í æfingaleik þegar hann fékk hjartaáfall og lést.

Mikil sorg er í knattspyrnuheiminum í Kósóvó eftir atvikið. Kajtazi þótti mikið efni. Hann hafði til að mynda farið á reynslu til félaga á borð við Anderlecht í Belgíu.

Kajtazi lék sem miðjumaður og átti að baki átta leiki fyrir U-17 ára landslið Kósóvó.

Kajtazi var talinn eiga framtíðina fyrir sér í boltanum.