Kári segist hafa fundið það fljótlega í fyrri umferð Íslandsmótsins að Víkingar væru með lið sem gæti barist um Íslandsmeistaratitilinn. ,,Þegar að við tókum Breiðablik og FH á heimavelli í fyrri umferðinni vissi ég það endanlega að við værum með nægilega gott lið til þess að gera atlögu að þessu. Ég var sannfærður um að við ættum að stefna á titilinn. Þegar að í seinni umferðina var komið hafði ég ekki áhyggjur af öðrum liðum en Breiðablik. Það var eina liðið í mínum huga sem gæti átt eitthvað í okkar atlögu."

Þegar líða fór á tímabilið varð það fljótlega ljóst að Víkingar gætu skráð sig í sögubækurnar með því að verða tvöfaldir meistarar. ,,Við teiknum síðustu leikina í deild og bikar þannig að við værum að fara í átta eða níu bikarúrslitaleiki. Þetta hafðist og menn gíruðu sig heldur betur upp í það og við kláruðum restina af leikjunum," sagði Kári Árnason í þættinum 433.is á dögunum.

Það að enda knattspyrnuferilinn á titlum með Víkingum, auðveldaði Kára að leggja knattspyrnuskóna á hilluna. ,,Líkamlega gæti ég haldið áfram, hugsanlega. Þetta er það gaman að það er rosalega erfitt að hætta, það er í raun vonlaust að taka þá ákvörðun. Ég vorkenni til að mynda vini mínum Helga Val að hafa þurft að taka þessa ákvörðun eftir dapurt tímabil hjá Fylki. Þetta er rosalega erfið ákvörðun að taka því þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir."

Vonar að þættirnir verði ekki væmnir

Heimildarþættir um Kára og liðsfélaga hans Sölva Geir Ottesen, sem lagði einnig knattspyrnuskóna á hilluna eftir tímabilið, verða sýndir á Stöð 2 sport vikurnar fram að jólum. Þáttaserían ber nafnið Víkingar - Fullkominn endir og koma úr smiðju Gunnlaugs Jónssonar og í þeim er Kára og Sölva fylgt eftir undir lok síðasta tímabils.

,,Gulli hafði samband við mig og vildi gera heimildarmynd varðandi minn feril og fylgja mér síðustu leikina á ferlinum. Svo mætti hann á völlinn og sá Sölva Geir bjarga á línu með hausnum og segist hafa fundið það á sér að það væri eitthvað stærra í uppsiglingu og hann er búinn að teygja þetta í einhverja svaka syrpu. Fyrsti þáttur verður sýndur 5. desember næstkomandi á Stöð 2 Sport. Þetta er spennandi en ég ætla að vona að hann geri þetta ekki of væmið. Vonandi verður þetta meira fótboltatengt og meiri hasar," sagði Kári Árnason í þættinum 433.is á dögunum.