Starfslokasamningur var á dögunum gerður við Eið Smára Guðjohnsen, sem gegndi starfi aðstoðarlandsliðsþjálfara í síðustu undankeppni og nú er svo komið að Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari stendur einn í stafni.

Nafn Heimis Hallgrímssonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands sem gerði frábæra hluti á sínum tíma með liðið, hefur skotið upp kollinum í tengslum við starf hjá KSÍ og Benedikt Bóas vill að forráðamenn sambandsins taki upp símann og hafi samband við Heimi.

,,Heimir er búinn að vera atvinnulaus í hálft ár og hann er aldrei orðaður við eitt né neitt. Hann virðist aldrei vera í umræðunni erlendis. Þið sem eruð á kafi í þessu eruð aldrei að orða hann við lið í þessum helstu deildum. Er ekki bara kominn tími til að hann setjist í skipstjórasætið í knattspyrnusambandinu. Það myndu að minnsta kosti koma ansi jákvæðir straumar með honum."

Heimir myndi þá ekki koma inn sem aðstoðarlandsliðsþjálfari heldur sem landsliðsþjálfari annað hvort með Arnari Þór eða einn síns liðs.

,,Hann er sameiningartákn og ef það er einhver sem kann að vera landsliðsþjálfari þá er það hann. Hann er bara með þetta, kann að tala inn í hjarta þjóðarinnar og ég vona að KSÍ sé að gera allt sitt til þess að tryggja það að Heimir Hallgrímsson verði í Laugardalnum frá og með árinu 2022," sagði Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamaður Fréttablaðsins í þættinum 433.is sem var sýndur á Hringbraut í gærkvöldi.