Kári fékk svokallaðan draumaendi á sínum knattspyrnuferli með því að verða Íslands- og bikarmeistari með Víkingi Reykjavík á svo til nýafstöðni knattspyrnutímabili hér á landi. Kári segir það hafa verið hápunktin á sínum ferli hvað félagslið varðar.

Það sama er ekki hægt að segja um endann á landsliðsferli hans. Kári spilaði 90 A-landsleiki á sínum ferli og skoraði 6 mörk. Þá fór hann á tvö stórmót og lék lykilhlutverk í sterkri vörn íslenska landsliðsins.

,,Félagslega var Víkin fyrir mér stærst og það sem ég met mest. En landsliðið er alltaf landsliðið, maður er að gera þetta fyrir Ísland. En allt í kringum þetta, öll vináttan sem skapast í kringum velgengni en erfiðu tímarnir líka gerðu þetta að einstökum tíma. Ég er stoltur af því að hafa fengið að taka þátt í þessum með öllum liðsfélögum mínum."

Eftir gullaldarár hjá íslenska landsliðnu tók að halla undan fæti. Hneykslismál skuku Knattspyrnusamband Íslands og lykilleikmenn íslenska landsliðsins.

,,Þetta eru náttúrulega breyttir tímar. Ég var beðinn um að vera þarna með landsliðinu undir lokin til þessa að hjálpa til og það er ekkert sem ég sé eftir en þetta er klárlega ekki hápunktur til þess að enda minn landsliðsferil eins og raunin varð með Víkingum. Við vorum með breytt lið, breyttar aðferðir og áherslur þannig að þetta var ekkert það sama og ég veit ekki alveg tilganginn í því að halda gömlum hundum eins og mér þarna inni ef að það á að breyta miklu. Vonandi skilaði ég einhverju til þeirra sem taka við keflinu."

Telur Kári að íslenska karlalandsliðið geti á ný farið að berjast um sæti á stórmótum í framtíðinni?

,,Ég vona það en auðvitað þegar að liðið gengur nú í gegnum erfiða tíma eins og nú er erfitt að sjá það. Við þurfum að koma inn á gömlu gildin og kenna þessum ungu strákum líkt og okkur var kennt á sínum tíma. Við lærðum bara að spila upp á nýtt fyrir landsliðið. Við vorum búnir að finna leiðir til þess að vinna bestu liðin. Það gerðist ekki með fagurfræði að leiðarljósi, það var byggt á miklu vinnuframlagi og menn tóku ábyrgð á því sem þeir voru að gera hvort sama hvaða stöðu þeir voru að spila. Ef við náum því aftur þá er allt mögulegt.

Aðspurður að því hvort Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, væri réttur maður í starfið telur Kári það geta vel verið: ,,Það er erfitt fyrir utanaðkomandi þjálfara sem var ekki viðloðinn þetta árangursríka lið að vita hvað til þarf en hann verður bara að sýna það," sagði Kári Árnason, fyrrum landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu í þættinum 433.is sem sýndur var á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi.