Von er á tilkynningu frá KSÍ um framhaldið á Íslandsmótinu í knattspyrnu eftir að ljóst varð að allt keppnishald er bannað til 3. nóvember að hið minnsta.

Allt íþróttastarf á höfuðborgarsvæðinu var lagt niður þann 8. október síðastliðinn. Með því var öllum leikjum Íslandsmótsins í knattspyrnu frestað.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, staðfesti í samtali við Fotbolti.net í gær að stjórn KSÍ myndi funda aftur í dag og ákvörðunin yrði líklegast kynnt eftir hádegi.

KR á flesta leiki eftir karlamegin þar sem KR-ingar eiga eftir fimm leiki í deild og að hið minnsta einn leik í bikar.

Sömu sögu er að segja af KR í kvennadeildinni sem á fjóra leiki eftir og að hið minnsta einn leik í bikar. Kvennalið KR berst fyrir lífi sínu í efstu deild og á tvo leiki til góða á næstu lið þar.

Þá eru 2 leikir eftir í flestum af neðri deildum íslenska boltans. KSÍ gaf það út fyrr á árinu að markmiðið væri að ljúka öllum keppnum fyrir 1. desember næstkomandi.