Ársþing Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, fer fram í dag en þingið fer fram rafrænt. Enginn kosningahamur var í aðdraganda kosninganna en formaðurinn Guðni Bergsson fékk ekki mótframboð og mun sama stjórn halda áfram.

Helsta spennan á þessu þingi er að sjá hvernig kosið verður um framtíðarskipulag á mótahaldi í efstu deild karla. Þannig hafa komið fram tillögur um 12 liða efstu deild með úrslitakeppni, 10 liða deild með þrefaldri umferð og loks 14 liða deild.

KSÍ hefur lagt fram ársreikning sinn fyrir árið 2020 þar sem fram kemur að rekstrartekjur sambandsins á árinu voru um 1.688 milljónir, eða um 67 milljónum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Tekjur af landsleikjum svo til hurfu vegna áhorfendabanns, en á móti kom hækkun á styrkjum og framlögum FIFA og viðbótarframlag vegna reksturs Laugardalsvallar. Rekstrarkostnaður var 239 milljónum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir, eða um 1.337 milljónir samanborið við 1.576 milljónir í áætlun.

Framlag KSÍ til aðildarfélaga vegna tekjutaps tengdu COVID-19 nam 160,6 milljónum, auk þess sem KSÍ tók yfir þátttökugjöld félaga upp á 10,8 milljónir sem og hlut félaganna í ferðaþátttökugjaldi um 8 milljónir.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Knattspyrnusambands Íslands á árinu er hagnaður upp á tæpar 38 milljónir króna.