Stærsta golfmót ársins, Íslandsmótið í höggleik fer af stað í Vestmannaeyjum á morgun og spilað verður út sunnudaginn næstkomandi. Karl Haraldsson hjá Golfklúbbi Vestmannaeyja var brattur þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til hans í dag og spurðist fyrir um undirbúning mótsins.

,,Það er nóg að gera,“ segir Karl aðspurður um hver staðan sé þegar stutt er í mót. ,,Undirbúningurinn hefur gengið frábærlega. Það var eitt stykki útihátíð hérna hliðina á okkur um síðustu helgi en þetta er allt að smella saman hjá okkur núna.“

Karl segir Golfklúbb Vestmannaeyja í gegnum tíðina hafa átt í mjög góðu samstarfi við ÍBV sem heldur Þjóðhátíð á hverju ári. Engin breyting hafi verið á því í ár nú þegar að hver stórviðburðurinn á fætur öðrum er haldinn í Vestmannaeyjum.

,,Það vill þannig til að í ár erum við gestgjafar Íslandsmótsins og það svona skömmu eftir stærstu útihátíð Íslands á ári hverju. Það hefur hins vegar ekki gert okkur neinn grikk og samstarfið við ÍBV gott nú sem endranær. Völlurinn er í frábæru standi og gaman að sjá bestu kylfinga landsins kljást við hann næstu daga.“

Mikið hefur verið lagt í undirbúning mótsins sem hefur staðið yfir allt frá því í október á síðasta ári eða frá því að gert var opinbert að mótið yrði haldið í Vestmannaeyjum. Heimamenn eru þó ekki óvanir því að halda slíkt mót en Íslandsmótið fór síðast fram í Vestmannaeyjum árið 2018.

,,Við fengum erfiðan vetur hérna í Vestmannaeyjum og höfðum áhyggjur af því hvort það myndi hafa áhrif á völlinn í framhaldinu. Þær áhyggjur reyndust hins vegar óþarfar, völlurinn kom vel undan vetri. Við erum að leggja mikinn metnað í þetta mót, höfum verið að gera góðan völl ennþá betri og það hefur tekist mjög vel.“

Karl segir vel hafa gengið að koma keppendum og fylgdarliði fyrir í Vestmannaeyjum.

,,Það er einn anginn af þessu að halda Íslandsmótið í golfi, að útvega aðstöðu. Hingað eru að mæta 152 keppendur. Það fylgja að sama skapi margir þessum keppendum eftir, bæði þjálfarar og fjölskyldur. Golfsamband Íslands mætir líka hingað með fjölda fólks, sjónvarpið er með beina útsendingu frá mótinu þannig það gefur augaleið að fjöldi fólks er að fara mæta til okkar um helgina. Það hefur gengið vel að finna aðstöðu og gistingu fyrir fyrir alla keppnisaðila sem og aðstandendur mótsins.“

Það stóð ekki á svörum hjá Karli þegar hann var inntur eftir svörum um það hverju landsmenn mættu eiga von á frá Íslandsmótinu í Vestmannaeyjum næstu dagana.

,,Landsmenn eiga von á frábæru móti. Það spáir góðu veðri, í það minnsta fyrstu tvo dagana, og við getum í raun og veru ekki beðið eftir því að sjá þessa bestu kylfinga landsins kljást við völlinn. Ég hugsa að við getum átt von á mikilli dramatík, góðu skori sem og snilldartöktum.“