Björgvin Páll Gústavsson varði fjögur vítaköst Bareina í leiknum gegn Íslendingum í B-riðli heimsmeistaramótsins í dag. Ísland vann risasigur, 36-18, og fékk þar með sín fyrstu stig á HM.

Björgvin átti afbragðs leik og varði 15 skot, eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig. Hann varði fjögur af þeim átta vítaköstum sem hann reyndi sig við.

Í fyrsta víti Barein skaut Mohamed Habib í höfuð Björgvins og fékk rautt spjald fyrir. Björgvin fékk boltann aftur í höfuðið úr víti undir lok fyrri hálfleiks en Mahdi Saad slapp þá við rauða spjaldið.

Ágúst Elí Björgvinsson kom inn á undir lokin og varði síðasta vítakast Bareina.

Íslensku markverðirnir vörðu því fimm af níu vítaköstum Bareina í leiknum, eða 56% þeirra.

Björgvin varði eitt víti gegn Króatíu á föstudaginn og hefur því varið fimm víti í heildina á HM.