Norski dómarinn Tom Henning Øvrebø viðurkennir að hafa gert mistök í frægum leik Chelsea og Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu 2009. Andrés Iniesta tryggði Börsungum sæti í úrslitaleiknum með glæsilegu marki rétt fyrir leikslok.

Chelsea-menn voru afar ósáttir við frammistöðu Øvrebøs og töldu hann hafa snuðað sig um nokkrar vítaspyrnur. 

Michael Ballack elti Norðmanninn eftir að dæmdi ekki víti þegar Samuel Eto'o fékk boltann í höndina í uppbótartíma og eftir leikinn hópuðust leikmenn Chelsea að Øvrebø. Didier Drogba og José Bosingwa fengu bann fyrir framkomu sína og Chelsea fékk 12 milljóna króna sekt. Þá fékk Øvrebø morðhótanir frá stuðningsmönnum Chelsea.

Í samtali við Marca sagðist Øvrebø hafa gert mistök í leiknum á Stamford Bridge.

„Þetta var ekki minn besti dagur. En dómarar, líkt og leikmenn og þjálfarar, gera mistök. Stundum nærðu þér ekki á strik. Ég get ekki verið stoltur af þessari frammistöðu,“ sagði Øvrebø og bætti við að væri ekki hægt að dæma feril hans út frá leiknum á Brúnni.

„Leikmenn og þjálfarar gera líka mistök og ekkert gerist. Ég er stoltur af því að hafa verið í hópi bestu dómara Evrópu. Þess vegna er ekki hægt að dæma mig út frá þessum eina leik.“

Barcelona og Chelsea mætast í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn.