„Tilfinningin er góð, ég er fullur auðmýktar, stolt og ánægju að fá umboðið til að vinna fyrir hönd KSÍ ásamt stjórninni næstu tvö ár,“ sagði Guðni Bergsson sem var í dag endurkjörinn formaður KSÍ.

Hann hafði betur gegn Geir Þorsteinssyni á 73. ársþingi KSÍ sem fór fram á Hilton Reykjavik Nordica-hótelinu í dag.

„Knattspyrnuhreyfingin á Íslandi er á góðum stað og ég er spenntur að halda áfram okkar samstarfi. Auðvitað er þetta viss léttir þegar þetta er komið á hreint.“

Aðspurður sagðist Guðni hafa gert sér grein fyrir því í hvað stefndi þegar hann hélt á þingið í morgun.

„Ég var bara bjartsýnn og jákvæður en maður veit aldrei alveg hvað kemur upp úr kosningarkössunum. Maður var ekki alveg viss en ég kom bjartsýnn á góða niðurstöðu.“

Guðni fékk 80% atkvæða í kjörinu eða 119 atkvæði. Alls skiluðu tveir inn auðum seðlum og Geir fékk 26 atkvæði.

„Þessar tölur eru mjög flottar og viðurkenning á því að við erum að vinna gott starf. Ég átti von á því að vinna en að munurinn yrði aðeins minni,“ sagði Guðni og hélt áfram:

„Ég vill túlka þetta sem svo að þetta sé viðurkenning á starfi okkar undanfarin ár og hvatning að halda áfram þessu starfi sem við höfum unnið. KSÍ er að eflast líkt og íslenskur fótbolti og við verðum að halda áfram að styðja við aðildarfélögin.“

Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, skaut á stjórn KSÍ í ræðu rétt fyrir kosningar og var skýrt að orðum hans var beint að Guðna.

„Ég var dálítið hissa á tímasetningunni en þetta er eitthvað sem hann verður bara að svara fyrir.“

Framundan eru leikir hjá íslenska landsliðinu og það styttist í að Pepsi-deildin hefjist á ný.

„Næst á dagskrá er bara að fara yfir málin sem komu upp á þinginu og að skipuleggja næstu vikur. Það eru spennandi verkefni á döfinni.“