Horst Hrubesch, þjálfari þýska landsliðsins, segist koma fullur sjálfstrausts til Íslands fyrir leik liðanna í undankeppni HM 2019 eftir að hafa náð að hrista hópinn vel saman í æfingarbúðum undanfarna daga.

Þýska landsliðið þarf á sigri að halda gegn Íslandi til að halda örlögunum í eigin höndum. Vinni Ísland þurfa Þjóðverjar að fara í umspil og ljúki leiknum með jafntefli getur Ísland haldið toppsætinu með sigri í lokaumferðinni.

Í ljósi þess hversu mikilvægur leikurinn er fékk hann heimild þýska knattspyrnusambandsins til að boða leikmenn í æfingarbúðir þótt að það sé stutt í að þýska deildin hefjist. Landsliðsþjálfari Íslands segir að þetta sýni að þýska liðið óttist það íslenska, sérstaklega eftir sigur Íslands ytra.

„Það var afar mikilvægt að fá þessa auka daga í æfingarbúðunum til að skoða betur leikmennina, skoða hvernig ástandi liðið var í og fara yfir það sem við gerðum í síðasta landsleikjahléi. Við reyndum að vinna í þessu með augastað á leikinn gegn Íslandi,“ sagði Hrubesch aðspurður út í æfingarbúðirnar.

„Leikmennirnir vita við hverju þær mega búast gegn Íslandi og hvað þarf að gera betur en þegar liðin mættust síðast. Við vorum að gera flotta hluti í síðasta æfingarleik og við vonumst til að byggja á því. Það voru jákvæð teikn á lofti í æfingarbúðunum,“ sagði sá þýski og bætti við:

„Við erum með nægilega sterkt lið til að vinna Ísland og komast beint inn á HM og ég er handviss á að þær nái þessu markmiði.“