Þann 22. september síðastliðinn skipaði ÍSÍ nefnd til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum og landsliðum Íslands. Nefndin hefur nú lokið störfum og skilað af sér niðurstöðum

„Nefndin telur ljóst að KSÍ hafði brugðist við í þremur þessara mála, annaðhvort með því að leikmaður var sendur heim úr landsliðsverkefni eða því að viðkomandi starfaði ekki aftur fyrir KSÍ,“ segir í umfjöllun nefndarinnar um málið.

Það er jafnframt niðurstaða nefndarinnar að upplýsingar sem þáverandi formaður KSÍ veitti fjölmiðlum og almenningi í ágúst síðastliðnum um vitneskju KSÍ af frásögunum um ofbeldismál hafi verið villandi, enda var formaðurinn á sama tíma með á borði tilkynningu frá starfsmanni KSÍ um alvarlegt kynferðisofbeldi gagnvart tengdadóttur starfsmannsins. Yfirlýsingarnar samræmdust heldur ekki vitneskju um eldri tilkynningu um kæru á hendur öðrum leikmanni vegna ofbeldis. Segir í skýrslu nefndarinnar.

Að öðru leyti telur nefndin ekki forsendur til að fullyrða að fyrir hendi séu atvik í formannstíð Guðna Bergssonar sem beri sérstök einkenni þöggunar og nauðgunarmenningar. Einnig segir í skýrslu nefndarinnar að engin gögn séu til staðfestingar um að Guðni hafi boðið meintum þolanda þöggunarsamning.

Í skýrslunni er einnig rætt um atvik frá árinu 2016 og er gerð athugasemd við Geir Þorsteinsson þá formann KSÍ og að hann hafi leitað til almannatengils. Um var að ræða atvik þar sem lögregla var kölluð til þegar grunur lék um heimilsofbeldi.

Nefndin tók viðtöl við um 50 einstaklinga sem hafa tengst KSÍ frá árinu 2010 einnig rætt við tugi einstaklinga sem tengjast atburðarrásinni.

Nefndina skipuðu Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur, Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, sem var jafnframt formaður nefndarinnar og Rán Ingvarsdóttir, lögfræðingur.