Banda­ríska körfu­bolta­konan Britt­n­ey Griner, sem hefur verið í haldi Rússa síðan í febrúar fyrr á þessu ári hefur verið færð í fanga­búðir í Mor­dovíu, suð-austur af Moskvu. Lög­fræðingar hennar segja hana reyna halda í styrkinn nú þegar hún er að venjast nýjum að­stæðum en ekki er langt síðan 9 ára fangelsis­dómur yfir Griner var stað­festur. The Guar­dian greinir frá.

Griner var í ágúst fyrr á þessu ári dæmd í níu ára fangelsi í Rúss­landi fyrir að hafa ,,vís­vitandi komið með kanna­bis­vökva í raf­­­sígarettu til Rúss­lands þrátt fyrir að þau væru ó­­­lög­­­leg," líkt og sagði í dómi rúss­neskra dóm­­­stóla. Hún hafði áður játað sök í málinu en á­frýjaði niður­stöðu dóm­stóla en á­frýjunin bar ekki árangur og var dómurinn stað­festur í síðasta mánuði.

Reu­ters greindi frá því um daginn við hvernig að­­stæður Griner mun búa við í fanga­búðunum og var þar rætt við Mariu Alyok­hina, með­lim feminísku hreyfingarinnar Pus­­sy Riot sem var á sínum tíma dæmd til tveggja ára vistar í sam­bæri­­legum fanga­búðum.

„Þetta er ekki bygging með fanga­­­­klefum, þetta er eins og furðu­­­­legt þorp, við getum líkt þessu við Gulag fanga­búðirnar," þær þekktust í Sovét­­­­ríkjunum undir stjórn Josef Stalin.

Lög­fræðingar Griner, Maria Blagovolina og Alexander Boy­kov fengu tíma með henni í fanga­búðunum á dögunum og segja hana í á­gætu á­standi miðað við allt. „Hún reynir að vera sterk nú þegar að hún að­lagast nýju um­hverfi.“

Fanga­búðir í líkingu við IK-2 fanga­búðirnar sem Griner er vistuð í eru þekktar fyrir harka­lega með­ferð á föngum, skort á hrein­læti sem og skort á að­gengi að við­eig­andi heil­brigðis­þjónustu. Vistunin í slíkum fanga­búðum sé mun harðari heldur en í hefð­bundnum fangelsum.

Viðræður um fangaskipti ekki borið árangur

Hingað til hafa við­ræður stjórn­valda í Banda­ríkjunum við stjórn­völd í Rúss­landi um mögu­leg fanga­skipti ekki borið árangur. Á blaða­manna­fundi í síðustu viku var Joe Biden, Banda­ríkja­for­seti spurður út í mál Britt­n­ey Griner.

Hann segist stað­ráðinn í því að ná Griner heim til Banda­ríkjanna. Sjálfur segist Biden vera í stöðugu sam­bandi við eigin­konu Griner, Cher­elle.

Nú greina fjölmiðlar í Rússlandi frá því að viðræður séu í gangi milli Rússlands og Bandaríkjanna um fangaskipti og vilja Rússar fá vopnasalann Viktor Bout, sem er í haldi í Bandaríkjunum, í skiptum fyrir Griner.

Það er ekki í fyrsta skipti sem viðræður Bandaríkjamanna og Rússa snúast um Griner og Bout. Í ágúst fyrr á þessu ári hófust fyrstu viðræður um skiptin

Bout var dæmdur í 25 ára fangelsi árið 2011 vegna ásakana um samsæri, vopnasmygl og aðstoð við hryðjuverkasamtök. Bout var lengi þekktur sem „sölumaður dauðans“ í Bandarískum fjölmiðlum en hann starfaði lengi sem vopnasali og seldi vopn til hryðjuverkasamtaka, glæpagengja og einræðisherra.