Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í fótbolta, hefur skrifað undir þriggja ára samning við enska knattspyrnufélagið Everton. Cecilía Rán gekk til liðs við Örebro í mars síðastliðnun en hún mun leikar með sænska liðinu fram til janúar árið 2022.

Félagsskiptin hafa legið í loftinu síðustu mánuðina en þau voru talin í uppnámi vegna Brexit nýverið en nú er ljóst að það mun ekki hafa áhrif á skiptin.

Þessi 18 ára gamli leikmaður hefur auk Örebro leikið með uppeldisfélagi sínu Fylki. Þá hefur hún leikið þrjá A-landsleiki en Cecilía Rán er yngsti markvörður í sögu landsliðsins.

Willie Kirk, knattspyrnustjóri Everton, segir eitt og hálft ár síðan forráðamenn félagsins sáu Cecilíu Rán spila og fljótlega hafi verið ákveðið að gera langtímasamning við hana. Fylgst verði með framgangi hennar í Svíþjóð.