Ágúst Eðvald Hlynsson, hefur gengið til liðs við knattspyrnulið Vals á láni frá danska liðinu Horsens út næstkomandi tímabil, þetta kemur fram í tilkynningu frá Valsmönnum.

Ágúst var á láni hjá FH á síðasta tímabili og það er mat forráðamanna Horsens að það sé best fyrir báða aðila að leikmaðurinn reyni fyrir sér áfram á Íslandi.

,,Ágúst er enn á jaðri leikmannahópsins hjá okkur þannig að við metum það skynsamlegt að hann verði áfram á Íslandi, þar sem að hann fær spilatíma. Valur er eitt af bestu liðum Íslands og því mun hann spila á mjög háu gæðastigi þar og það mun gera honum vel," sagði Niels Erik Søndergård, yfirmaður íþrótta- og hæfileikamótunar hjá Horsens.

Jens Berthel Askou, þjálfari Horsens, tekur í svipaðan streng og Niels. ,,Ágúst hefur yfir að ráða frábæru viðhorfi, hann leggur ávallt hart að sér til að vera enn betri og hann á skilið meiri spilatíma en við getum boðið honum. Það er mikil samkeppni um stöður hjá okkur og leikmennirnir sem hann keppir við hafa staðið sig mjög vel."

Jens Berthel Askou, þjálfari Horsens
GettyImages

Jens segir vistaskipti Ágústs á þessari stundu henta báðum aðilum vel. ,,Hann þarf líka meiri spilatíma til þess að auðvelda sér að halda sætinu í u21 árs landsliði Íslands. Það getur hann fengið hjá einu af stóru félögunum á Íslandi þannig að þetta er góð lausn fyrir alla. Við hlökkum til að fá hann aftur til okkar, ennþá betri en hann var þegar að hann fór."